Líftæknismiðja Matís opnuð á Sauðárkróki
„Það er engin tilviljun að smiðjan er hér í sveit sett. Allt umhverfi og aðbúnaðar er eins og best verður á kosið svo sem návígi við fjölbreyttan matvælaiðnað og öflug fyrirtæki eins og FISK sem hefur verið starfseminni hér ómetanlegur bakhjarl og samherji. Nálægðin við Háskólann á Hólum hefur vitaskuld mjög mikla þýðingu, þar sem afbragðs aðstöðu og þjónustu fyrir vísindamenn og nemendur er að finna. Þá felst líka mikill styrkur í nándinni við Iceprótein.“ Þetta sagði Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann opnaði líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki.
Fyrirtæki í þessum geira, alls staðar á landinu, geta gengið til samstarfs við smiðjuna og verður frumkvöðlum í líftækni sköpuð aðstaða til að þróa sínar vörur og vinnsluferla í samvinnu við sérfræðinga Matís. Jafnframt er hægt að fá aðstöðu til skemmri tíma til að framleiða afurðir. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mjög mikilvæg til að stytta ferlið frá hugmynd til markaðar.
„Ætli megi ekki halda því fram að við sitjum á gullkistu sem ljúka þarf upp. Einn lyklanna að henni er hér á Sauðarkróki. Við Íslendingar búum svo vel að eiga vel menntað og fært fólk á þessu sviði en vegna annarra áherslna hafa tækifærin ekki verið nýtt sem skildi síðustu misseri. Nú hafa aðstæður breyst og ekki seinna vænna að beinum kröftunum í þessa átt. Sérstaða okkar - auk góðrar menntunar - er fólgin í sérstakri náttúru Íslands, hagstæðu rannsókna- og þróunarumhverfi, hreinu vatni og ódýrri hreinni orku. Gífurleg tækifæri fyrir aukna og betri nýtingu náttúruauðlinda og verðmætasköpun annars matvælaiðnaðar eru til staðar. Nýta á þá hugarorku og mannauð sem losnað hefur um, til að koma metnaðarfullum nýsköpunarverkefnum í framkvæmd og auka bæði gjaldeyristekjurnar og sjálfbærni okkar í matvælaframleiðslu. Við þurfum að koma vitinu í verð eins og það er kallað hjá Matís“ sagði Einar Kristinn.
Í ávarpi sínu lagði ráðherra ríka áherslu á brýna nauðsyn þess að byggja efnahagslíf þjóðarinnar upp til framtíðar, snúa vörn í sókn úr þeim gríðarlega vanda sem nú sé við að etja. „Réttilega hefur verið sagt að við erfiðleikaaðstæður fæðist oft góðar hugmyndir, sem verða að veruleika. Menn sjái ný tækifæri, sem aðstæður hafi kannski ekki kallað eftir þegar vel hefur gengið. Ísland hefur verið dýrt land, hér hefur hátt gengi oft hamlað vexti nýrra sprota, en nú er þetta að breytast. Okkur er öllum ljóst að möguleikar til nýsköpunar geta orðið margvíslegri en áður - og kannski óvæntari. Þessi tækifæri eigum við að reyna að grípa – og grípa þau greitt. Við blásum til sóknar, mitt í þeim erfiðleikum sem við er að glíma. Mótlætið má nefnilega ekki buga okkur, heldur stæla til enn frekari átaka. Einfaldlega vegna þess að nú ríður á að okkur takist að rífa okkur upp, nýta okkur þá sprota sem við getum örvað til frekari vaxtar, undir formerkjum þekkingar og framtaks sem við, íslensk þjóð eigum kappnóg af. Við fögnum auðvitað hverju nýju starfi sem unnt er að skapa, ekki hvað síst á landsbyggðinni. Þar eiga stjórnendur og starfsmenn Matís heiður skilinn fyrir ötula og markvissa uppbyggingu víðs vegar um land.“
Í ræðunni kom fram að starfsmönnum Matís á Sauðárkróki fjölgar um þrjá með líftæknismiðjunni. Reiknað sé með að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum bæði hjá Matís og Iceprótein og bæði vísindamenn og nemendur leiti í smiðjuna og vinni að rannsóknum sínum þar. Með þessu fjölgi því störfum vísinda- og tæknimenntaðs fólks í Skagafirði.
Tuttugu og þrír starfsmenn eru á vegum Matís á sex stöðum á landinum, eða liðlega fimmtungur mannaflans. Þeim á væntanlega eftir að fjölga enn frekar á næstu misserum. „Markmiðið er ekki að skapa eins einingar á öllum stöðum heldur þvert á móti að hver og ein hafi sína sérstöðu og þjóni ekki bara sínu nánasta umhverfi heldur landinu öllu. Það er markviss stefna stjórnenda Matís að þar sem heimamenn eru reiðubúnir til samstarfs, góðar hugmyndir, þekking og áhugi fara saman, þar er Matís reiðubúið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að stuðla að hvers kyns uppbyggingu á sínu sviði“ sagði Einar Kristinn Guðfinnsson við opnun líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki.