Lionsklúbbur Sauðárkróks færði Árskóla 750 þúsund krónur til bókakaupa

Óskar Björnsson, skólastjóri, Una Karen Guðmundsdóttir og Jón Gabríel R. Marteinsson, fulltrúar skólans, Alfreð Guðmundsson, formaður Lionsklúbbs Sauðárkróks og fulltrúar hans; Bragi Haraldsson, Gunnar Björn Ásgeirsson og Rögnvaldur Valbergsson. Fyrir ofan hópinn má sjá þjóðfána allra nemenda skólans. Mynd: PF.
Óskar Björnsson, skólastjóri, Una Karen Guðmundsdóttir og Jón Gabríel R. Marteinsson, fulltrúar skólans, Alfreð Guðmundsson, formaður Lionsklúbbs Sauðárkróks og fulltrúar hans; Bragi Haraldsson, Gunnar Björn Ásgeirsson og Rögnvaldur Valbergsson. Fyrir ofan hópinn má sjá þjóðfána allra nemenda skólans. Mynd: PF.

Í morgun afhentu fulltrúar Lionsklúbbs Sauðárkróks ungum fulltrúum Árskóla veglega peningagjöf til bókakaupa fyrir nemendur, alls 750 þúsund krónur. Er það von klúbbsins að gjöfin nýtist nemendum skólans vel og stuðli að meiri lestaráhuga og færni hjá þeim.

Óskar Björnsson, skólastjóri, sagði í þakkarræðu sinni að byrjað yrði á því að kaupa bækur fyrir nemendur sem eru tvítyngdir, eða hefðu tvö til þrjú móðurmál og einnig væri ætlunin að einblína á drengi á unglingastigi. „En þetta eru svo miklir fjármunir að við getum keypt miklu meira þannig að þetta mun nýtast öllum nemendum skólans,“ sagði Óskar.

Formaður klúbbsins, Alfreð Guðmundsson, segir að síðustu tíu árin hafi Lions-hreyfingin verið með læsis-átak í gangi meðal ungmenna og meðal annars gefið bækur í alla leikskóla á Íslandi fyrir þremur árum.

„Árið 2022 er síðasta árið í þessari áhersluherferð okkar og fannst okkur í Lionsklúbbi Sauðárkróks því tilvalið að horfa til grunnskólabarna hér á Sauðárkróki og hjálpa til með að stuðla að auknum lestri hjá börnum og ekki síst hjá drengjum á unglingastigi og nýbúum hér í skólanum. Það er einlæg von okkar að þessi gjöf komi að góðum notum hér í Árskóla og leiði til aukins áhuga nemenda á lestri, þeim til framfara, fróðleiks og skemmtunar,“ sagði Alfreð í samtali við Feyki.

Hér fyrir neðan má sjá myndbrot af afhendingu gjafarinnar sem fram fór í matsal skólans að viðstöddum nokkrum ungum nemendum skólans.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir