Lionsklúbburinn Björk

Lionsklúbburinn Björk á Sauðárkróki hittist lítið sem ekkert síðasta vetur en hefur náð að hittast þrisvar sinnum það sem af er þessum vetri. Fundirnir hafa verið haldnir í Gránu og þar höfum við notið gestrisni og góðra veitinga og þökkum við fyrir það.

Við fengum Önnu Blöndal umdæmisstjóra til okkar á einum fundinum og sagði hún frá markmiðum sínum og ýmsum verkefnum sem eru í gangi í hreyfingunni. Anna heiðraði 3 konur fyrir 15 ára starf í þágu Lions en það eru Andrea Björnsdóttir, Stefanía Ó. Stefánsdóttir og Svava Svavarsdóttir. Margrét Guðmundsdóttir fékk sérstaka viðurkenningu fyrir góð störf sem svæðisstjóri við erfiðar aðstæður veturinn 2020 - 2021. Þar sem þessi fundur var haldinn í október var að sjálfsögðu bleikt þema og sáu Brynja Ingimundardóttir og Kristín Sveinsdóttir um að skreyta salinn með fallegum bleikum skreytingum og fékk hver kona fallega náttúrusápu sem seld er til styrktar krabb.is. Sigurbjörg Guðjónsdóttir og Anna Gísladóttir fóru í 2. bekk í Árskóla í október og afhentu litabækur um brunavarnir í heimahúsum. Með þeim var Sigurður Bjarni Rafnsson frá Brunavörnum Skagafjarðar en þetta samstarfs verkefni hefur verið í gangi í mörg ár.

Í byrjun desember var haldinn makalaus jólafundur. Í stað pakkaskipta gekk baukur og settu konur frjáls framlög í hann. Verður ágóðanum veitt í verðugt málefni. Maturinn var einstaklega góður og eftir hann stigu Svavar Knútur og Aldís Fjóla á stokk og skemmtu okkur við góðar undirtektir. Fyrir jólin hefur klúbburinn styrkt eina eða fleiri fjölskyldur í samráði við sóknarprestinn og nú var ákveðið að 120.000 krónur færu til barnmargrar fjölskyldu sem átti um sárt að binda. Íbúar á Dvalarheimili Heilbrigðisstofnunnar Norðurlands á Sauðárkróki fengu einnig glaðning því keypt var streymi á jólatónleika Björgvins á allar 6 setustofurnar. Auk þess fengu allir sem vildu sherry og Nóakonfekt. Með því lauk árinu og við höldum keikar inn í 2022.

/Lionsklúbburinn Björk

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir