Litlu mátti muna að illa færi er gangnamaður lenti í sjálfheldu

Ef vel er að gáð má sjá þyrluna bera við himinn hátt uppi í klettum á þeim slóðum sem maðurinn sat fastur í sjálfheldu sl. föstudag. Mynd af FB- síðu Skagfirðingasveitar/Jón Daníel Jóhannsson.
Ef vel er að gáð má sjá þyrluna bera við himinn hátt uppi í klettum á þeim slóðum sem maðurinn sat fastur í sjálfheldu sl. föstudag. Mynd af FB- síðu Skagfirðingasveitar/Jón Daníel Jóhannsson.

Gangnamaður lenti í sjálfheldu í klettabelti í fjalllendi í Unadal í austanverðum Skagafirði sl. föstudag. Björgunarsveitir í Skagafirði, auk fjallabjörgunarfólks í Eyjafirði, voru kallaðar út og segir í Facebook-færslu Skagfirðingasveitar að verkefnið hafi verið krefjandi. „Til allrar lukku komst þyrlan fljótlega á vettvang og sigmaður hennar seig eftir manninum,“ segir í færslunni.

„Þarna er um gagnamann að ræða sem kemst í sjálfheldu og allar sveitir í Skagafirði voru kallaðar út og fjallabjörgunarmenn úr Eyjafirði, af svæði 11 eins og það er kallað. Svo kom þyrlan og hífði manninn upp,“ segir Hafdís Einarsdóttir, formaður Skagfirðingasveitar.

Hún segir manninn ekki hafa slasast mikið en orðinn kaldur og hrakinn og ekki mátt muna miklu að illa færi. „Hann hefði ekki getað beðið mikið lengur því hann var í hættulegum aðstæðum. Þetta stóð mjög tæpt. Hann hefði ekki mátt fara af stað því hætta var á að hrapa í klettunum.“

Að sögn Hafdísar var maðurinn skorðaður í þröngum gilskorningi og vatn sem rann undir hann og því orðinn blautur en óslasaður en fær síðar grjóthrun á sig. Eftir skoðun hjá lækni var hann kominn til síns heima síðar um kvöldið.

Alls voru 38 manns skráðir í atvikið frá björgunarsveitum á svæðum 10 og 11 og stóð til að rýna í atvikið í gærkvöldi en þá eru allir verkferlar í kringum verkefnið skoðaðir til að vera enn betur búin næst ef svipað atvik kunni henda.

Betur fór en á horfði í fyrstu því björgunarþyrlur Gæslunnar voru að störfum annars staðar á landinu. Hafdís segir að þegar hringt var eftir þyrlu hafi þeim verið sagt að nokkur verkefni væru í forgangi áður en hún kæmi til þeirra. Af þeim sökum var fjallabjörgunarfólk af Eyjafjarðasvæðinu fengið á svæðið.

„Þannig að þyrlan kom frekar óvænt. Við sáum fram á að hún kæmi síðar og bjuggumst við að við þyrftum jafnvel að fara í það að bjarga manninum gangandi. Það voru því gleðifréttir að vita af henni á leiðinni en það var mjög mikið að gera hjá gæslunni þennan dag. Þetta hefði getað orðið gríðarstórt verkefni hefði þyrlan ekki komist,“ segir Hafdís og giskar á að það hefði tekið að minnsta kosti klukkutími að nálgast manninn ef þyrlan hefði mætt á svæðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir