Ljósleiðaranet í hvert hús í Hlíðarhverfi
Nú er langþráðum áfanga náð í uppbyggingu ljósleiðaranets Gagnaveitu Skagafjarðar því tengivinnu í Hlíðahverfi á Sauðárkróki er lokið. Þar með hafa um 650 heimili í Skagafirði aðgang að gagnaflutningi eins og best gerist í heiminum í dag. Næstu daga munu þjónustuveitendur kynna framboð sitt.
Á heimasíðu Gagnaveitunnar segir að kostir þess að tengjast ljósleiðara séu fjölmargir. Helst er að nefna hraðvirkari internetþjónustu, sjónvarpsþjónustu með tugum rása, myndaleigu og símaþjónustu.
-Með þessum möguleikum opnast nýjar víddir í fjarvinnslu, fjarnámi, rafrænni heilbrigðisþjónustu, rafrænni stjórnsýslu og þátttöku í gagnvirkum tölvuleikjum svo að fátt eitt sé nefnt. Síðast en ekki síst erum við að styðja við öfluga gagnaveitu í heimabyggð með því að tengjast ljósleiðaranum. Þeir sem vilja virkja sína tengingu hafa einfaldlega samband við Fjölnet í síma 455-7900 eða umboðsmann Vodafone í Rafsjá í síma 453-5481, segir Arnar Halldórsson verkefnastjóri.
-Því miður verður ekki farið í frekari framkvæmdir á vegum Gagnaveitu Skagafjarðar að svo stöddu þó að næg séu verkefnin. Munum við einbeita okkur að fjölgun viðskiptavina innan þess hóps sem þegar hefur aðgang að kerfinu, segir Arnar.
Meðfylgjandi mynd sýnir framkvæmdastjóra verktakans, Tengils ehf. , og framkvæmdastjóra Gagnaveitu Skagafjarðar við þetta tilefni.