Lokafundur „Riding Native Nordic Breeds“

Um síðustu helgi var haldinn á Hólum lokafundur í verkefninu „Riding Native Nordic Breeds.“ Þátttakendur komu frá Noregi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi og Bandaríkjunum.

Dagskráin stóð saman af fræðilegum fyrirlestrum, kynningum og heimsóknum í fyrirtæki á svæðinu, auk þess sem fjallað var um hvað áunnist hefði í verkefninu og næstu skref til að efla frekari samvinnu á þessum vettvangi.

Á föstudagskvöldinu fékk hópurinn kynningu á hestafræðideild skólans og fékk m.a. að sjá nemendur og skólahesta leika listir sínar. Á laugardeginum var fjallað um hvað hefði áunnist meðan á verkefninu stóð, m.a. handbók um hestaferðaþjónustu í tengslum við upprunaleg norræn hestakyn, sem unnið er að í verkefninu. Einnig voru fluttir fyrirlestrar um klasasamstarf og þróun klasa í hestamennsku á Norðurlandi vestra.

Eftir hádegi á laugardeginum voru fyrirtækjakynningar þar sem þátttakendur kynntust bæði nýjum og reyndari fyrirtækjum sem byggja starfsemi sína á hestinum með einum eða öðrum hætti. Hlín Mainka Jóhannesdóttir sagði frá Lynghorse sem er nýtt fyrirtæki með áherslu á reiðkennslu og  hestaferðaþjónustu. Síðan var farið í Flugumýri II, Lýtingsstöðum og í Rúnalist – gallerí og endað á mat á Hótel Varmahlíð, þar sem fluttur var einn fyrirlestur.

Á sunnudeginum var málstofa tileinkuð hestaheilsu og ræktun. Þessir þættir eru umhugsunarverðir fyrir þá sem vinna með hestakyn sem jafnvel eru í útrýmingarhættu, eins og t.d. færeyski hesturinn. Gestir fundarins fengu svo leiðsögn um Sögusetur íslenska hestsins.

Þá var haldin var málstofa um næstu skref þar sem ákveðið var að nota samfélagsmiðla og rafræn samskipti til að halda sambandi og undirbúa frekara samstarf á þessu sviði. Nánar er sagt frá dagskrá helgarinnar á vef Hólaskóla og þar eru einnig fleiri myndir.

Fleiri fréttir