Lokanir vegna kolvitlauss veðurs

Lokað er um Öxnadalsheiði, Þverárfjall, Vatnsskarð og Holtavörðuheiði vegna hálku og óveðurs. Ekki er gert er ráð fyrir að lægi að gagni og rofi til á Holtavörðuheiði fyrr en upp úr kl. 19 til 21 í kvöld, samkvæmt vef Vegagerðarinnar. Eins verður hvasst með skafrenningsfjúki um tíma nú undir kvöld á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Hálka og óveður er við Stafá á Siglufjarðarvegi.

Samkvæmt vef Landsbjargar er kolvitlaust veður á Holtavörðuheiði og sinna björgunarsveitir frá Varmalandi, Hvammstanga og Búðardal lokunum á Holtavörðu á heiðina við Bröttubrekku og við Staðarskála að beiðni Vegagerðarinnar. Einnig eru sveitirnar á leiðinni á heiðina til aðstoðar vegfarendum. Ekki er alveg vitað um ástandið þar en fregnir hafa borist af a.m.k. tveimur bílum sem fokið hafa á hliðina og fleiri eru í vandræðum.

Á Rúv.is segir að á fjórða tug bíla sitja fastir á heiðinni. Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í Háskólanum á Bifröst fyrir þá ferðalanga sem skilja hafa þurft bíla sína eftir á heiðinni og eiga ekki heima í næsta nágrenni. Gert er ráð fyrir að Holtavörðuheiði verði lokuð fram á kvöld.

Fleiri fréttir