Loksins, loksins! Gott stig til Stólanna í dag

Tindastóll og HK mættust á Sauðárkróksvelli í dag í sumarblíðu og fíneríi eins og vænta mátti. Þrátt fyrir markalausan leik var leikurinn ágæt skemmtun og loksins nældu Stólarnir í stig eftir tólf tapleiki í röð og voru stuðningsmenn – og sennilega leikmenn líka – sælir með stigið.

Leikurinn fór frekar rólega af stað en gestirnir léku undan léttri sunnanátt. Úrslitin í 1. deildinni eru ráðin og kannski ekki mikið annað í húfi en stoltið hjá liðunum í dag. Gestirnir úr Kópavogi sóttu meira en það var lítill hraði í sóknarleik þeirra og Stólarnir vörðust af harðfylgi og létu finna vel fyrir sér. Tindastólsmönnum hefur haldist illa á mannskapnum í allt sumar, stanslaus meiðsli og bönn hafa sett strik í reikninginn. Í dag vantaði fjóra leikmenn úr byrjunarliði síðasta leiks; Árna Einar, Fannar Kolbeins, Benna Gunnlaugs og Kristinn Snjólfs. Ingvi Hrannar skilaði sér hinsvegar til baka eftir rifbeinsbrot, sömuleiðis voru Ben Grifftiths og Hólmar Skúla komnir aftur. Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik og varla hægt að segja að liðin hafi fengið færi. Það var helst að HK menn ógnuðu með nokkrum hornspyrnum þegar leið á hálfleikinn.

Síðari hálfleikur var fjörugri og greinilegt að Þorvaldur Örlygs, þjálfari HK, hafði hvatt sína menn til að sækja á fleiri mönnum og færa boltann hraðar upp völlinn. Stólarnir vörðust áfram vel og reyndu að róa leikinn á meðan mesti krafturinn var í gestunum. Leikurinn opnaðist nokkuð þegar á leið og Fannar Gísla fékk besta færi leiksins um miðjan hálfleikinn en þá slapp hann í gegnum vörn HK eftir laglegt þríhyrningaspil en Beitir Ólafs í marki gestanna náði að koma boltanum út fyrir stöngina. Stuttu síðar áttu HK menn gott skot sem hafnaði í stönginni. Bæði lið áttu ágætar sóknir eftir þetta en síðustu 10 mínútur leiksins virtist hlaupa nokkur skjálfti í heimamenn, eftir að varnartröllið Bjarki Árna varð að fara af velli, og gáfu þeir nokkrar aukaspyrnur við vítateig sinn sem vörnin og Terrence Dietrich markvörður náðu að verjast. Prúðmenninu Guðna Einars í liði Tindastóls var síðan vikið af velli undir lokin, áhorfendum til talsverðrar furðu og kátínu, en HK-menn náðu ekki að nýta sér liðsmuninn þær tvær mínútur sem eftir lifðu leiks. Lokatölur 0-0.

Frammistaða Tindastólsmanna var með miklum ágætum í dag og börðust leikmenn fyrir hvern annan, voru samstíga og héldu haus í 90 mínútur. Kannski héldu gestirnir að þeir þyrftu ekki annað en að mæta til að sigra en það var ekkert gefið að þessu sinni. Vörn Stólanna var traust en fremstur í flokki var þó vinstri bakvörðurinn Kári Eiríks sem hreinlega át kantmenn HK með húð og hári. Inni á miðjunni átti Bjarni Smári flottan leik, sópaði upp fyrir framan vörnina eins og þaulvanur kústur. Ingvi Hrannar kom sterkur til leiks á ný, var baráttuglaður inni á miðjunni framan af og tók síðan stöðu Bjarka í lokin og leysti það hlutverk vel. Fremstur var Fannar Gísla sem fær ekki úr miklu að moða en hann sýndi ágæta takta en er örugglega bullandi fúll yfir að hafa ekki skorað.

Síðasti heimaleikur sumarsins verður nk. laugardag kl. 14:00 en þá mæta Grindvíkingar í heimsókn en þeir hafa yfirleitt verið okkur hundleiðinlegir. En það er allt hægt í fótboltanum – spyrjið bara MK Dons. Áfram Tindastóll!

Fleiri fréttir