Loksins sigur Stólastúlkna í Síkinu

Linda Þórdís átti ágætan leik með Stólastúlkum. MYND: HJALTI ÁRNA
Linda Þórdís átti ágætan leik með Stólastúlkum. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var leikið í 1. deild kvenna í gær en þá mætti b-lið Fjölnis í Síkið og mættu liði Tindastóls sem hefur átt undir högg að sækja upp á síðkastið. Lið gestanna var yfir í hálfleik en eftir sérkennilegan þriðja leikhluta náðu Stólastúlkur yfirhöndinni og náðu með mikilli baráttu að passa upp á forystuna allt til loka og náðu því loks í sigur eftir erfiða eyðimerkurgöngu síðustu vikurnar. Lokatölur 48-40.

Lið Tindastóls fór betur af stað og Eva Rún var mjög áberandi í fjarveru Evu Wium. Berglind Gísla setti niður þrist fyrir lok fyrsta leikhluta og staðan 16-9 heimastúlkum í vil. Eftir að hafa verið 19-11 yfir snemma í öðrum leikhluta gerðu gestirnir þrjár 3ja stiga körfur og komust yfir en jafnræði var með liðunum fram að hléi. Staðan 25-27 í hálfleik eftir að Marín Lind lagaði stöðuna með tveimur vítaskotum.

Þriðji leikhluti kemst sennilega ekki í sögubækurnar fyrir fegurð og blússandi sóknarleik en gestirnir gerðu fjögur stig á fyrstu fjórum mínútunum en síðan ekki söguna meir á meðan lið Tindastóls gerði ekkert stig fyrstu sex mínúturnar en níu stig það sem eftir lifði og var því komið yfir, 34-31, eftir gríðarlega varnarbaráttu. Lið Fjölnis minnkaði muninn í tvö stig snemma í fjórða leikhluta en Stólastúlkur svöruðu með þristi frá Marín og þremur stigum frá Lindu Þórdísi og staðan 43-35. Þennan mun náðu gestirnir aldrei að vinna upp og lokatölur urðu 48-40.

Eva Rún Dagsdóttir var atkvæðamest í liði Tindastóls en hún gerði 16 stig og þrátt fyrir ansi fáa sentimetra á hæðina þá hirti hún 12 fráköst og var frákastahæst í Síkinu. Linda Þórdís Barðdal Róbertsdóttir spilar nú með Stólastúlkum og hún komst vel frá sínu, gerði 11 stig og tók átta fráköst. Þá var Marín Lind Ágústsdóttir með 13 stig í leiknum. Karen Lind Helgadóttir átti erfitt uppdráttar í sókninni, tók tíu skot í opnum leik en hitti aldrei, en hún var grjóthörð í vörninni og hirti 11 fráköst. Raunar var hittni liðanna ansi slök í leiknum en baráttan var í topplagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir