Lukkan í liði Selfyssinga þegar Kormákur/Hvöt laut í gras

Lið Kormáks/Hvatar hóf leik í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í gærdag en þá héldu Húnvetningar á Selfoss þar sem lið Selfoss beið þeirra. Gestirnir voru þéttir til baka og sköpuðu sér vænlegar stöður sem ekki nýttust en lið heimamanna fékk eitt gott færi og nýtti það. Lokatölur því 1-0 og nú krossa Húnvetningar fingur og treysta á að fall sé fararheill.

Það var fátt um dauðafæri í leiknum og það voru gestirnir sem fengu besta færi fyrri hálfleiks en Atli Þór setti boltann beint í lúkurnar á markmanni Selfyssinga. Staðan því markalaus í hálfleik og síðari hálfleikur var með svipuðu sniði. Það var hins vegar sem fyrr segir heimaliðið sem gerði eina mark leiksins og það kom á 70. mínútu. Þá snéri Ganzalo Zamorano Leon á Papa og skoraði.

Lesa má ágætis umfjöllun um leikinn á Aðdáendasíðu Kormáks og þar segir m.a. að fyrir leik hafi „...væntingar heimamanna sennilega verið í þá átt að hér væri þægilegasta byrjun á móti sem þeir hefðu getað óskað sér – en annað átti eftir að koma á daginn.“ Þeir höfðu þó sigur að lokum sem voru ekki verðskulduð úrslit því gestirnir máttu heita óheppnir að nýta ekki sín færi betur í leiknum.

Næsti leikur Kormáks/Hvatar er settur á um næstu helgi en þá mun lið Reynis Sandgerði mæta Húnvetningum. Þá er bara að sjá hvort völlurinn á Króknum telst brúklegur eftir leysingabasl aprílmánaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir