Lundasýning opnar á morgun

Aðstandendur Lundasýningarinnar. Árni Rúnar Hrólfsson, Magnús Barðdal, Árni Gunnarsson og Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson: Mynd: PF.
Aðstandendur Lundasýningarinnar. Árni Rúnar Hrólfsson, Magnús Barðdal, Árni Gunnarsson og Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson: Mynd: PF.

Puffin and friends nefnist sýning sem opnuð verður á morgun laugardag á Aðalgötu 24 á Sauðárkróki sem í dag gengur undir nafninu Engill eða Engilshúsið sem hýsti áður rafmagnsverkstæðið Tengil. Sýningin hefst klukkan 11 árdegis. Hér er um sýningu að ræða  sem gaman er fyrir ferðamenn sem og heimafólk að skoða.

„Grunnhugmyndin að þessari sýningu er hlýnun hafsins og tilfærsla á lífríki sjávar m.t.t. þeirra fugla og fiska sem lifa í því, sérstaklega til norðurs,“ segir Árni Gunnarsson einn aðstandenda sýningarinnar en með honum eru þeir Árni Rúnar Hrólfsson, Magnús Barðdal og Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson. Ægir bætir við útskýringar Árna að einnig sé tekið á þætti mannsins í hnatthlýnuninni sem veldur því m.a. að lundastofninn stækkar fyrir norðan land og er orðinn miklu aðgengilegri heldur en er fyrir sunnan og vestan land. Það er mat þeirra máta að sé ískyggileg og hröð þróun.

Fyrir utan húsið er stórt tjald en þar verður rekin upplýsingamiðstöð fyrir fyrir ferðamenn en einnig verður til sölu ýmiss konar varningur og þar er hægt að kaupa miða á sýninguna.

Fyrst er farið inn í herbergi sem sýnir afleiðingar hlýnunar jarðar sem við lifum núna, en að sögn Árna er það sjórinn sem tekur rúmlega 90% af henni. Einnig er vakin athygli á þeirri plastmengun sem orðin er ógnvekjandi í heimshöfunum en sjávardýr verða fyrir margvíslegum skaða vegna plastmengunar.

Lundinn er orðinn aðgengilegur á eyjunum þremur í Skagafirði, Drangey, Málmey og Lundey og segir Árni að yfir 100 þúsund lundapör verpi í þeim. Í minnstu eynni, Lundey, verpa um 22 þúsund pör en hinar eyjarnar eru með álíka fjölda hvor um sig, eitthvað yfir 40 þúsund pör. Ægir segir að tiltölulega sé stutt síðan lundinn tók sér bólfestu í Málmey en hefur búið vel um sig þar.

Þó að alviðfangsefni safnsins sé lundinn, fá aðrir sjófuglar, og þau spendýr sem hafa Skagafjörð sem búsvæði, sitt pláss í sýningunni. Má þar nefna þá hvaltegundir sem sjást reglulega á firðinum sem og selir, bæði út- og landselur. Þá verður til sýnis hvítabjörninn sem felldur var í Fljótum árið 1988 og hefur verið vistaður í Náttúrugripasafninu í Varmahlíð.

Að endingu geta gestir brugðið á sig sýndargleraugum og ferðast út í Drangey með hjálp tækninnar og 360° myndatöku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir