Lyftuhús væntanlegt í Safnahús Skagfirðinga
Í september voru opnuð tilboð í uppsetningu lyftu og endurbætur á Safnahúsi Skagfirðinga, sem hýsir Héraðsskjala- og Héraðsbókasöfn Skagfirðinga. Kostnaðaráætlun var uppá 76.845.855 krónur og bárust tvö tilboð í verkið. Annað var frá K-tak ehf. að upphæð 78.874.901 (102,6%) en hitt frá Trésmiðjunni Ýr ehf. að upphæð 79.661.043 kr. (103,7%).
Á síðasta fundi byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar var samþykkt að ganga til samninga við K-tak, ásamt því að panta lyftu í húsið. Var sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs falið hvort tveggja. Ekki er gert ráð fyrir allri framkvæmdinni á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins 2014, en það sem út af stendur verður sett á framkvæmdaáætlun ársins 2015. Ekki er þörf á að breyta þriggja ára áætlun 2015-2017 vegna þessa.
Á meðan á framkvæmdum stendur verður að loka söfnunum. Framkvæmdir munu hefjast 7. nóvember en Þórdís Friðbjörnsdóttir, forstöðumaður Héraðsbókasafnsins segir því miður ekki hægt að segja til um hversu lengi þær standa. Hún segir að á meðan framkvæmdum standi verði tækifærið notað og safnkosturinn skráður í Landskerfi bókasafna, Gegni. Því verði að innkalla allar þær bækur sem eru í útláni fyrir 6. nóvember. Verði þetta nánar kynnt með auglýsingu í Sjónhorninu í þessari viku.