Maddie gekk af göflunum fyrir vestan

Maddie Sutton hefur reynst liði Tindastóls mikill styrkur. Hér er hún í leik gegn ÍR fyrr í vetur. MYND: DAVÍÐ MÁR
Maddie Sutton hefur reynst liði Tindastóls mikill styrkur. Hér er hún í leik gegn ÍR fyrr í vetur. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það var spilað í 1. deild kvenna í dag og Stólastúlkur fóru vestur á Ísafjörð þar sem Vestrastúlkur biðu. Það var allt í járnum í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik tóku Stólastúlkur leikinn yfir og unnu að lokum öruggan sigur, 68-89, og komust aftur á sigurbraut. Að öðrum ólöstuðum er rétt að nefna að Maddie Sutton átti stjörnuleik en það gerist nú sennilega ekki oft að einn og sami leikmaðurinn skori yfir þrjátíu stig og taki yfir þrjátíu fráköst í sama leiknum. Sem var það sem Maddie gerði í dag og lauk leik með 58 framlagspunkta! Já, hvaða rugl er þetta!?!

Liðin skiptust á um að hafa forystuna í fyrsta leikhluta en Allyson Caggio átti síðustu íleggju fyrsta leikhluta og lið Vestra yfir, 19-17. Heimastúlkur hófu annan leikhluta af krafti og náðu mest átta stiga forystu, 30-22, þegar leikhlutinn var hálfnaður. Tindastóll tók leikhlé og Ksenja gerði næstu sjö stig leiksins og minnkaði muninn í eitt stig. Stólastúlkur skriðu síðan yfir fyrir hlé þar sem Maddie gerði átta næstu stigin og lið Tindastóls tveimur stigum yfir í hálfleik. Staðan 35-37.

Fjögur fyrstu stig þriðja leikhluta voru Vestra en Rebekka Hólm skellti í þrist og lið Tindastóls leit ekki til baka eftir það. Átta stig í röð frá Stólastúkum breyttu stöðunni úr 41-42 í 41-50. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 48-61 og eftir að Anna Karen gerði fyrstu fimm stig fjórða leikhluta var ljóst í hvað stefndi.

Mikilvægur sigur því staðreynd og gott að næla í stig á ný eftir erfiða leiki í síðustu umferðum. Lið Vestra hafði unnið einn leik í vetur en lið Tindastóls tvo og því gott að finna aftur sigurbragðið. Fimm lið eru nú jöfn í 5.-9. sæti í deildinni en lið ÍR er efst í deildinni, hafa unnið alla sjö leiki sína, lið Ármanns eru með 12 stig og Þórsstúlkur eru með 10 stig.

Í liði Tindastóls átti Maddie sem fyrr segir stjörnuleik; endaði með 35 stig og 31 frákast. Ksenja Hribljan skilaði sömuleiðis flottum tölum en hún gerði 19 stig, tók átta fráköst og átti tólf stoðsendingar! Fanney María Stefánsdóttir var sömuleiðis öflug með ellefu stig og sjö fráköst á rúmum 20 mínútum og ljóst að einhver einhvers staðar er að springa úr monti. Þá endaði Anna Karen með átta stig.

Næstkomandi laugardag kemur lið Ármanns í heimsókn í Síkið en það lið hefur verið að spila vel og er sem fyrr segir í öðru sæti deildarinnar. Vonandi skella Stólastúlkur í glansleik og halda áfram á sigurbraut – sem er auðvitað skemmtilegasta brautin. Áfram Tindastóll!

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir