Maður handtekinn á Sauðárkróki fyrir að ganga á mat

Lögreglan á Sauðárkróki handtók mann á veitingahúsi á Sauðárkróki í vikunni, þar sem maðurinn var að ganga á mat gesta veitingahússins. Gekk hann á milli borða, tók diskana af gestum staðarins sem voru að gæða sér á matnum, setti þá á gólfið og gekk ofan í matnum. Aðspurður um þetta athæfi sitt sagðist hann vera haldinn þeirri áráttu að þurfa sífellt að traðka á mat.

Við yfirheyrslur kom í ljós að maður þessi, sem er hálfur íslendingur, hefur haft lífsviðurværi sitt af því að kremja vínber í stórum tunnum á vínekrum víðsvegar í Evrópu. Hann var hins vegar í heimsókn hjá skyldfólki sínu sem gifti sig á dögunum og varð talsvert uppistand í veislunni þegar hann tók til við þá iðju að taka föt af hlaðborði veislunnar og ganga á þeim. Fjölskyldan leysti þau mál á staðnum og ekki kom til afskipta lögreglu þá.

Hins vegar varð ekki hjá því komist að kalla til lögreglu þegar maðurinn tók upp á iðju sinni á veitingastaðnum eins og áður sagði. Mun maðurinn þegar hafa verið sendur úr landi, til ónefnds vínræktarhéraðs í Frakklandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir