Málmey SK 1 veiddi mest ferskfisksskipa
Vefsíðan Aflafréttir hefur tekið saman lista yfir aflahæstu togara landsins fyrir árið 2016. Skagfirski togarinn Málmey SK 1 var fengsæll og bar mestan afla allra ísfisksveiðiskipa að landi, alls 8551 tonn í 47 löndunum. Næstu skip voru Björgvin EA 311 með 7467 tonn og Helga María AK 16 með 7454 tonn. Í ellefta sæti kemur svo Klakkur SK 5 með 5654 tonn.
Hjá frystitogurunum varð Brimnes RE aflahæst með 11180 tonn í 22 löndunum og Kleifaberg RE í öðru sæti með 10114 og togari Fisk Seafood, Arnar HU, í fimmta sæti með 8208 tonn í 13 löndunum. Mestur afli Arnars í einum veiðitúr var 1237 tonn sem er næstmesti afli sem frystitogari hefur landað úr einni veiðiferð. Aðeins Þerney RE kom með meira eða 1299 tonn en hún er í 7 sæti yfir aflahæstu frystiskipin með 7766 tonn í 11 löndunum.