Margir fá hærri hitaveitureikninga en öllu jafna

Um miðjan október sl. var lesið af öllum hitaveitumælum notenda Skagafjarðarveitna í Skagafirði og var sá álestur notaður til uppgjörs á um tólf mánaða tímabili, frá miðjum október 2017 til miðs október 2018. Notendur hafa því fengið raunnotkun sína leiðrétta fyrir þetta tímabil og eiga ýmist inneign eða eru í skuld.

Á heimasíðu SKV  segir það sérstaklega áberandi við þennan álestur að margir notendur hafa verið að fá hærri reikninga en öllu jafna. Skýrist það af stórum hluta á veðurfari síðasta árs þar sem meðalhitastig var töluvert lægra en árin 2016 og 2017.

Árni Egilsson, skrifstofustjóri SKV, segir að í október sé lesið af hitaveitumælum hjá hinum almenna notenda og í kjölfarið sendir út uppgjörsreikningar. Í ár voru þessir uppgjörsreikningar almennt hærri en árið á undan vegna þess að tímabilið var 1,7°C kaldara en tímabilið þar á undan, sem var þar að auki í hlýrra lagi. „Þessi hitasveifla í tíðarfarinu gerði það að verkum að áætlun um meðaltals dagsnotkun var lægri en raunnotkun sagði til um og sem gerði það að verkum að uppgjörsreikningar notenda voru 5 til 20 þúsund króna hærri og hjá sumum töluvert hærri. Hærri uppgjörsreikningar voru almennt á Sauðárkróki, vegna þess hversu notkunarsaga mælanna er stutt og því litlar forsendur fyrir reikningakerfið að gera áætlanir. Einnig voru notendur sem áttu inneign, og má ætla að þeir notendur hafi verið að vinna í því að lækka hjá sér hitunarkostnaðinn og það hafi skilað þeim það góðum árangi að þeir hafi átt inneign þrátt fyrir kaldari tíð,“ segir Árni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir