Markaleikur á Sauðárkróksvelli

Magnaður sigur hjá stelpunum í Tindastól. MYND: ÓAB
Magnaður sigur hjá stelpunum í Tindastól. MYND: ÓAB

Í gærkvöldi fór fram bráðskemmtilegur leikur Tindastóls og Grindavíkur í Inkasso deild kvenna á Sauðárkróksvelli. Það vantaði svo sannarlega ekki upp á spennuna og mörkin í þessum leik því mörkin voru alls sjö. Fyrir leikinn var Tindastóll í sjötta sæti með níu stig en Grindavík í því fjórða.

Tindastóll byrjaði leikinn af krafti og á 5. mínútu kom fyrsta færi leiksins þegar Laufey Harpa gaf flotta  sendingu á Murielle Tiernan sem náði góðu skoti á mark Grindavíkur en Veronica Smeltzer markvörður Grindavíkur varði. Tindastóll fékk fullt af færum í byrjun en það vantað örlítið upp á að ná að pikka boltanum inn. Á 10. mínútu varð Guðrún Jenný fyrir því óláni að gera sjálfsmark. Fimm mínútum síðar fékk Grindavík vítaspyrnu þegar Hrafnhildur fékk boltann í höndina, Shannon Simon tók spyrnuna og skoraði. Staðan 2-0 fyrir Grindavík þvert á móti gangi leiksins. Á 22. mínútu kom fyrirgjöf frá Maríu inn í teiginn þar var Murielle sem fékk boltann og skoraði með góðu skoti. Færin voru fleiri en mörkin ekki staðan 1-2 fyrir Grindavík í hálfleik.

Tindastóll átti seinni hálfleikinn og lágu í færum. Á 75. mínútu kom jöfnunarmarkið sem Tindastóll var að leita að og var það Hrafnhildur Björnsdóttir sem skoraði eftir hornspyrnu frá Jacqueline. Þremur mínútum síðar fékk Murielle sendingu upp vinstri kantinn og fann hún Jacqueline sem var inn í teignum, Jacqueline snéri baki við markið en tók frábæran snúning og skoraði. Eftir þriðja mark Tindastóls virtist vera að stelpurnar hafi misst örlítið einbeitinguna. Þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fékk Grindavík aukaspyrnu. Shannon Simon tók hana og smurði hún boltanum upp í fjærhornið algjörlega óverjandi skot og staðan 3-3. Á 88. Mínútu kom sigurmarkið í leiknum þegar Tindastóll fékk aukaspyrnu á miðjum velli Jacqueline tók hana og endaði boltinn hjá Bryndísi fyrirliða sem náði fínu skoti sem endaði inni. Lokatölur á Sauðárkróksvelli 4-3 fyrir Tindastól í hreint mögnuðum leik.

Tindastóll er komið upp í þriðja sæti deildarinnar eftir þennan sigur. Það voru ýmsar skoðanir um dómara leiksins í gærkvöldi en það þýðir ekkert að tuða í dómaranum, hann er bara að reyna að gera sitt besta eins og leikmennirnir. Næsti leikur hjá Tindastól er á móti ÍR og er leikurinn á föstudaginn 12. júlí klukkan 19:15 á Sauðárkróksvelli.

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir