Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Skagafirði
Í gærkvöldi var gengið formlega frá myndun meirihluta Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Skagafirði. Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins staðfesti þetta í samtali við Feyki í morgun.
Stefán sagði að skrifað hefði verið undir samkomulag í fyrrakvöld sem síðan hefði verið samþykkt í trúnaðarráðum beggja flokka gærkvöldi. Sem kunnugt er fengu framsóknarmenn fimm menn kjörna í sveitarstjórnarkosningunum sl. föstudag en sjálfstæðismenn fengu tvo menn kjörna. Vinstri grænir og óháðir og Skagafjarðarlistinn fengu einn menn hvor.
En hvers vegna þetta samstarf frekar en hreinn meirihluti?
„Við vorum búin að velta þessu mikið og niðurstaðan varð að gera þetta á breiðari grunni, enda töldum við það þjóna hagsmunum sveitarfélagsins betur. Við erum jú kjörin til að þjóna hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess og teljum það best gert á þennan hátt,“ sagði Stefán Vagn í samtali við Feyki.
Síðasti fundur fráfarandi sveitarstjórnar verður á miðvikudaginn í næstu viku, þann 11. júní en ný sveitarstjórn fundar svo miðvikudaginn 18. júní. Að sögn Stefáns verða stóru málin á þessu kjörtímabili sem nú fer í hönd fjölgun íbúa og efling atvinnulífsins.