Meistaravörn við ferðamáladeild

Á föstudaginn fór fram meistaravörn við ferðamáladeild Háskólans á Hólum.  Það var Áskell Heiðar Ásgeirsson sem varði ritgerð sína: „Hamingjan er hér - Samfélagsleg áhrif Bræðslunnar á Borgarfirði eystra“. Leiðbeinendur voru Guðrún Helgadóttir og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir. Prófdómari var Anna Karlsdóttir, en athöfninni stýrði Ingibjörg Sigurðardóttir.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna þau áhrif sem tónlistarhátíðin Bræðslan hefur haft á samfélagið á Borgarfirði eystra, þar sem hún hefur verið haldin árlega frá árinu 2005, og nýta niðurstöðurnar til að búa til betri viðburð.  Í ritgerðinni er fjallað um samfélagsleg áhrif viðburða, um tónlistarhátíðir, hérlendis og erlendis og um jaðarbyggðir.  Dregin er upp mynd af bakgrunni Bræðslunnar á Borgarfirði og stöðu samfélagsins þar.  Beitt var aðferðum þátttökurannsókna auk þess sem framkvæmdar voru spurningakannanir meðal heimafólks á Borgarfirði og gesta hátíðarinnar.
Helstu niðurstöður eru þær að Bræðslan nýtur mikils velvilja, bæði hjá gestum hennar og meðal heimafólks.  Hátíðin hefur haft margvísleg jákvæð áhrif á samfélagið á Borgarfirði, eflt sjálfsmynd íbúa og styrkt efnahagslega innviði.  Þá hefur hún aukið verulega sýnileika staðarins í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
Áskell Heiðar starfaði við skipulag viðburða, atvinnu-, ferða- og menningarmál hjá Sveitarfélaginu Skagafirði til ársins 2012, en þá um haustið hóf hann MA-nám í ferðamálum við Háskólann á Hólum. Síðastliðið ár bjó hann ásamt fjölskyldu sinni í Yorkshire í Englandi, þar sem hann stundaði nám við Leeds Metropolitan University sem skiptinemi frá Háskólanum á Hólum.  Áskell Heiðar mun hefja kennslu við ferðamáladeild Háskólans á Hólum á komandi haustmisseri en auk þess er hann upphafsmaður og annar framkvæmdastjóra tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar á Borgarfirði eystra.
Frá þessu er sagt á vef Hólaskóla.

Fleiri fréttir