Mengunareftirlit með flutningum á olíu á Íslandi er ekki til staðar

Olíubíll utanvegar á Öxnadalsheiði í júlí 2020. Mynd: hnv.is
Olíubíll utanvegar á Öxnadalsheiði í júlí 2020. Mynd: hnv.is

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur kveðið upp úrskurð í deilu Olíudreifingar hf. við Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra frá því í janúar á þessu ári. Þá áminnti nefndin Olíudreifingu til að knýja félagið til þess að veita upplýsingar um magn olíu sem var flutt um Öxnadalsheiði í september 2019 til Skagafjarðar og Húnavatnssýslu sem og magn olíu sem flutt var til Fjallabyggðar frá Akureyri í sama mánuði. Olíudreifing hafði áður hafnað að veita umbeðnar upplýsingar.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var á þá leið að nefndinni hafi ekki verið heimilt að krefja upplýsinganna og því síður að áminna Olíudreifingu í kjölfarið, þar sem dreifing olíu var ekki starfsleyfisskyld með skýrum hætti, þó svo að starfsemin væri eftirlitskyld sbr. 5. gr. reglugerðar 884/2017. Í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar um heimildir heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að þær séu einkum fólgnar í að fræða, leiðbeina og veita upplýsingar og má ráða að nefndin telji þær skyldur sem reglugerðin leggur á herðar eftirlitsaðila, vart til eiginlegs opinbers eftirlits.

Í umfjöllum Heilbrigðisnefndarinnar um málið á heimasíðu sinni bendir nefndin á að óskin um upplýsingarnar hafi ekki verið af ástæðulausu þar sem flutningar með olíu á vegum hafi aukist mjög á sl. árum og nýlega orðið tvö stór mengunarslys í Skagafirði. Vísar nefndin þar í atvik er olíubíll valt á Öxnadalsheiði í júlí í fyrra með þeim afleiðingum að tugþúsundir lítra af olíu láku út í umhverfið sem og alvarlega mengun á Hofsósi þar sem fjölskylda þurfti að flytja úr húsi sínu vegna jarðvegsmengunar út frá lekum bensíntanki við N1. Enn er óvíst hversu mikil mengunin sé á Hofsósi og er það mál enn í fullri vinnslu.

Í umfjölluninni kemur fram að í tengslum við málið á Hofsósi hafi komið í ljós að nýlegar breytingar á reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi, heimili að í notkun séu einfaldir niðurgrafnir járntankar, sem eru orðnir margra áratuga gamlir. Því telur nefndin að úrskurðurinn opinberi að eftirlitsstofnanir með umhverfismálum hafi afar takmarkaðar heimildir til þess að krefjast lágmarksupplýsinga um flutning hættulegra mengunarefna, sem geta valdið mikilli mengun á lífríki Íslands og raskað lífsskilyrðum fólks.

Endar nefndar umfjöllun sína á þessum orðum: „Af úrskurðinum má draga þann lærdóm að lítið sem ekkert raunverulegt eftirlit sé með dreifingu olíu á Íslandi og skýra þurfi nánar heimildir heilbrigðisnefnda til afskipta af bryggjugeymum  og olíugeymum sem ekki eru tengdir starfsleyfisskyldri starfsemi sbr. 5. gr. reglugerðar 884/2017.  Ekki verður ráðið annað af úrskurðinum en að heimildir heilbrigðisefnda til þess að krefjast úrbóta á umræddum búnaði, sé vart til staðar. Í framhaldi af þessum tveimur málum er vert að velta upp þeirri spurningu, hvort að núverandi heimildir yfirvalda til að afla upplýsinga og kröfur sem gerðar eru til mengunarvarna bensínstöðva, eigi sér einhverja hliðstæðu á öðrum Norðurlöndum?“

/SHV

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir