Metafli á land árið 2019

Drangey SK2 og Brimstogarinn Akurey AK10 í Sauðárkrókshöfn í gær. Mynd: PF.
Drangey SK2 og Brimstogarinn Akurey AK10 í Sauðárkrókshöfn í gær. Mynd: PF.

Landaður afli á Sauðárkróki og Hofsósi var samtals 30.271 tonn á árinu 2019 sem er nýtt met í lönduðum afla samkvæmt því sem fram kemur á vef Skagafjarðarhafna. Fragtskipakomur á árinu voru alls 71 og inn- og útflutningur um Sauðárkrókshöfn nam samtals 46.370 tonnum.

Fjórir togarar voru drýgstir í löndunum á Sauðárkróki, þrír í eigu Fisk Seafood; Drangey SK2 sem landaði rúmlega 6803 tonnum, Málmey SK1 með tæp 6222 tonn og Arnar HU1 landaði 5582 tonnum. Viðey RE50, sem er í eigu Brims hf. skilaði 1484 tonnum á land á Sauðárkróki.

Eins og kunnugt er keypti FISK-Seafood hluti í Brimi í lok sumars og seldi skömmu síðar með 1,3 milljarða hagnaði. Fyrir vikið voru þau kaup valin bestu viðskipti ársins samkvæmt dómnefnd Markaðarins, fylgiriti Fréttablaðsins. Á vb.is segir: „FISK-Seafood keypti 8,3% hlut lífeyrissjóðsins Gildis í Brimi á genginu 33 á fimm milljarða króna og bætti svo við sig hlutum á genginu 34 og 36. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er að mestu í eigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims, keypti allan hlut FISK, skömmu síðar, á genginu 40,4, fyrir tæplega átta milljarða króna. Greitt var fyrir stóran hluta kaupverðsins með aflaheimildum í þorski, ýsu, ufsa og steinbít, sem vakti mikla lukku sveitarstjórnarmanna í Skagafirði.“

Tíu togarar skiluðu samtals 21707,3 tonnum, fjórir dragnótabátar 773,4 tonnum, tólf grásleppubátar 273,4 tonnum og fjórir netabátar 74,1 tonni. Alls kom rúmt 291 tonn frá 31 handfærabáti, 1937 frá línubátum og 5212,5 tonn af rækju barst að landi. Þá skilaði sjóstöng 1,6 tonni sem gerir þá yfir heildina 30270,6 tonn af lönduðum afla í Skagafjarðarhöfnum árið 2019.

Nánar má sjá skiptingu eftir bátum og veiðarfærum á heimasíðu HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir