Mikið fjör á dansmaraþoni
Mikið fjör var á balli 10. bekkinga í íþróttahúsinu í gærkvöldi. Fjöldi fólks kom og dansaði með börnunum þegar Geirmundur spilaði á nikkuna og Jói trommari sló taktinn með.
Krakkarnir voru með matsölu og fengu færri en vildu því allir skammtar seldist upp.
Logi danskennari og Inga Birna stjórnuðu dansi og héldu uppi miklu stuði. Logi var danskennari á Króknum í 6 ár er nú fluttur burt. Hann sagðist reyna koma af og til og fylgist þá með hvernig gengur í dansinum. -Það er erfitt að slíta sig frá þessu, en Inga Birna er að skila mjög góðu starfi og eins og þú sérð er þessi kennsla að skila sér, sagði Logi og horfði stoltur út á dansgólfið.
Snæbjört Pálsdóttir formaður nemendaráðs sagði að 42 nemendur væru í árganginum og tækju þátt í dansmaraþoninu. Þetta er liður í fjáröflun fyrir skólaferðalagið í vor. Við ætlum að fara til Danmerkur og Svíþjóðar í vinaskóla.
-En hvað ef ástandið verður enn slæmt á fjármálamarkaðnum og engan gjaldeyri að hafa? -Við höfum fulla trú á því að ástandið lagist og ef það geris ekki gerum við eitthvað brjálað við peningana, sagði Snæbjört og var rokinn út á dansgólf.
Krakkarnir munu dansa fram að hádegi svo enn er tími til að líta við hjá þeim í félagsmiðstöðina.