Mikið um að vera á morgun 1. des.

Á morgun er merkisdagur í sögu Íslands en þá eru liðin 100 ár frá því að landið fékk fullveldi undan Danmörku og hlaut um leið sjálfstæði sem Konungsveldið Ísland. Á Sauðárkróki verður ýmislegt um að vera þennan dag sem vert er að skoða.

Klukkan 8:30 munu nemendur Árskóla fara í sína árlegu friðargöngu þar sem ljós verða tendruð á krossinum á Nöfum. Allir Skagfirðingar eru hvattir til að mæta og taka þátt í þessum gleðilega viðburði. Eftir gönguna er boðið upp á kakó og piparkökur í Árskóla sem verður opinn gestum og gangandi í tilefni dagsins.

Klukkan 12 á hádegi býður Rótarýklúbbur Sauðárkróks fólki að koma í íþróttahúsið og þiggja góðar veitingar á jólahlaðborði þeirra sem er eins og fyrri ár ókeypis.

Gamli bærinn verður glæddur jólastemningu þar sem fyrirtæki verða með opið og bjóða upp á allt mögulegt. Klukkan 15:30 verða svo ljósin á jólatrénu á Kirkjutorginu tendruð með hjálp jólasveina og jafnvel dverga og hver veit nema aðrar kynjaskepnur eigi eftir að láta sjá sig.

Um kvöldið færist hátíðardagskráin fram í Varmahlíð þar sem Kvennakórinn Sóldís og Karlakórinn Heimir munu bera uppi dagskrá í Menningarhúsinu. Hefst hún kl. 20 og er undir yfirskriftinni: „Hver á sér fegra föðurland“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir