Mikil stemning á frumsýningu
Það var mikil stemning í Bifröst á frumsýningunni á Emil í Kattholti í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks sl. laugardag og skemmti fólk sér vel í sal. Uppselt var á aðra sýningu leikritsins sem fór fram í gær.
Emil er uppátækjasamur ungur drengur sem hefur misst töluna á öllum þeim spýtuköllum sem hann hefur tálgað þegar hann hefur þurft að dúsa í smíðaskemmunni. Hann hefur sig þó allan við að reyna að bæta fyrir skammarstrikin og m.a. með því að veita Línu hjálp til að losna við tannpínuna.
Ævintýri Emils eru kunn og voru fyrst sett á svið á Íslandi árið 1988, þá af Leikfélagi Hafnarfjarðar. Sama ár setti Leikfélag Sauðárkróks sýninguna upp og var þar með annað áhugaleikfélag á landinu til að sýna Emil. Þá fóru Guðjón B. Gunnarsson og Margrét Viðarsdóttir með hlutverk Emils og Ídu. Að þessu sinni eru það systkinin Eysteinn Ívar Guðbrandsson og Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir sem leika þau Emil og Ídu.
Höfundur verksins er Astrid Lindgren og þýðandi Vilborg Dagbjartsdóttir. Um þýðingu söngtexta sá Böðvar Guðmundsson. Tónlist gerði Georg Riedel. Leikstjóri er Páll Friðriksson.
Eftirfarandi er sýningarplan:
3. sýning þriðjudag 14. október kl. 18:30
4. sýning miðvikudag 15. október kl. 18:30
5. sýning föstudag 17. október kl. 18:30
6. sýning laugardag 18. október kl. 16:00
7. sýning sunnudag 19. október kl. 16:00
8. sýning þriðjudag 21. október kl. 18:30 (lokasýning)
Miðasala er í síma 849 9434 og einnig í Bifröst 30 mín. fyrir sýningar. Hér er heimasíða félagsins.