Mikilvægi rannsókna og menntunar er ótvíræð

Skúli Skúlason

Fimmtudaginn 2. apríl var haldið málþing í Frímúrarahúsinu á Sauðárkróki um mikilvægi Háskólans á Hólum í samfélaginu.
Áhersla var lögð á þrjú meginefni þ.e. hvernig starfsemi Hólaskóla geti verið þungamiðja í þróun í samfélaginu ekki síst búsetuþróunin. Hvernig mikilvægi nýsköpunar kemur fram í samfélaginu í sambandi við háskóla og háskólamenntun. Og í þriðja lagi mikilvægi þess að pólitísk öfl sameinist um að greiða fyrir því að starfsemi háskóla á landsbyggðinni fái að dafna.
Á ráðstefnunni kom fram að sterk byggðaleg rök lægju fyrir því að háskólar störfuðu á landsbyggðinni hvað varðar mikilvægi til búsetu og atvinnuþróunar og margvísleg efnahags-, félags- og menningarleg áhrif eru sterk. Gæði náms á Háskólanum á Hólum er talið mjög gott og er öflug leið fyrir fólk að skapa sér atvinnugrundvöll og má þar nefna þá sem hafa útskrifast af hestafræðibraut en þar hefur þróunin í reiðmennsku verið mjög mikil og þekkt út um allan heim. Í sambandi við fiskeldi kom fram að útflutningur á bleikju skili tekjum í þjóðarbúið um allt að milljarði króna á ári. Nýsköpun er mikil í ferðamálum og aukning á gjaldeyristekjum í þeirri grein er gríðarlega mikil. Þar skiptir máli rannsóknir og menntun og ráða jafnvel úrslitum um hvernig gengur í þeirri grein. Þeir sem útskrifast sem ferðamálafræðingar frá Hólaskóla hafa átt greiða leið í góð störf á sviði ferðamála.
Að sögn Skúla Skúlasonar rektors Hólaskóla er ráðstefna sem þessi ætluð til þess að koma á framfæri málefnum er skipta samfélagið máli og að fólk ræði þau mál og ekki síst núna á þeim tímum sem við lifum á í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir