Mikilvægur sigur Tindastóls gegn Úlfunum

Tindastólsmenn eru í ágætum málum í B-riðlinum. Hér fagna þeir marki á dögunum. MYND: ÓAB
Tindastólsmenn eru í ágætum málum í B-riðlinum. Hér fagna þeir marki á dögunum. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn fóru suður í dag og spiluðu við lið Úlfanna á Framvellinum í 4. deildinni. Leikurinn var ansi mikilvægur en nú er barist um sæti í úrslitakeppninni í haust. Lið Úlfanna var eitt tveggja liða sem Stólunum tókst ekki að leggja að velli í fyrri umferðinni en liðin gerðu þá 2-2 jafntefli í spennandi leik. Hefðu Stólarnir tapað hefðu Úlfarnir komist upp að hlið þeirra á töflunni en sú varð ekki raunin því Stólarnir náðu í flottan 2-3 sigur og styrktu stöðu sína í riðlinum.

Heimamenn náðu forystunni í leiknum á 16. mínútu þegar Halldór Brynjarsson skoraði. Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Anton Örth og á 32. mínútu kom Jónas Aron Stólunum yfir en kappinn er kominn með tíu mörk í deildinni. Staðan 1-2 í hálfleik.

Jökull Ólafsson jafnaði metin á 55. mínútu en það var fyrirliðinn, Konni, sem gerði sigurmarkið í leiknum úr vítaspyrnu.

„Ég er virkilega ánægður með sigurinn i dag,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir hafði samband. „Úlfarnir erum mjög öflugir og við þurftum að vera vel á tánum á móti þeim. Við sýndum mikinn og góðan karakter að koma til baka eftir að þeir komast i 1-0 og svo aftur þegar þeir jafna 2-2. Liðsheildin, þrautsegjan og vinnusemin skilaði þessum sigri í dag og það er ég mjög ánægður með.“

Lið Tindastóls og KFK eru efst og jöfn með 23 stig en Kópavogspiltar eiga leik til góða. Úlfarnir eru síðan í þriðja sæti með 17 stig. Næsti leikur Tindastóls er hér heima næstkomandi laugardag kl. 14. Þá kemur Knattspyrnufélagið Ásvelli í heimsókn en þeir Hafnfirðingar eru í fjórða sæti riðilsins með 16 stig og eiga leik til góða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir