Minjaráð Norðurlands vestra tekið til starfa
Sérstöku Minjaráði Norðurlands vestra hefur verið komið á laggirnar og er það í samræmi við 10. gr. laga um menningarminjar (nr. 80/2012), en þar er kveðið á um skiptingu landsins í minjasvæði og um minjaráð og hlutverk þeirra. Minjaráðum er ætlað að vera samráðsvettvangur hvers minjasvæðis og fjalla um menningarminjar, varðveislu þeirra og nýtingu í þágu samfélagsins í samráði við Minjastofnun Íslands og höfuðsöfn sem skilgreind eru samkvæmt safnalögum. Svo og önnur helstu söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja.
Landinu er skipt í minjasvæði eftir ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Minjastofnunar Íslands og á hverju minjasvæði starfar minjaráð. Minjavörður stjórnar fundum minjaráðs, en auk hans geta fulltrúar samtaka sveitarfélaga og skipulagsyfirvalda á minjasvæðinu og forstöðumenn viðurkenndra safna átt sæti í ráðinu. Heimilt er að bjóða fulltrúum annarra hagsmunaaðila á minjasvæðinu sæti í minjaráði.
Skipað er í minjaráð til fjögurra ára í senn, og er formaður ávallt minjavörður viðkomandi minjasvæðis. Minjavörður Norðurlands vestra er Þór Hjaltalín.
Í Minjaráði Norðurlands vestra eru: Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga; Guðmundur Lúther Hafsteinsson, safnvörður húsasafns Þjóðminjasafns Íslands; Gunnsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri Sjávarleðurs á Sauðárkróki; Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra; Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi Norðurlands vestra og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum.