Minkur í miðjum Krók

Hann var ekki styggur minkurinn sem Dagur Amlin náði að mynda í einum hólmanum í Sauðánni rétt sunnan verknámshúss FNV á Króknum í gærmorgun. Dagur, sem er nemandi skólans, lýsir því fyrir blaðamanni hvernig minkurinn athafnaði sig í mestu makindum án þess að láta mannfólkið trufla sig.

„Ég var að ganga framhjá og sá minkinn. Hann horfði bara á mig og hljóp um á ísnum en krummi var að reyna að gogga í hann. Þá stakk hann sér út í ána,“ segir Dagur.

Við eftirgrennslan Feykis kemur í ljós að minksins hafi verið vart a.m.k. síðasta hálfa mánuðinn en hann ekki verið tilkynntur til sveitarfélagsins fyrr en nýlega og meindýraeyðir sveitarfélagsins kominn með málið í sínar hendur. Eins og flestir vita er minkur mikill vargur í íslenskri náttúru og því hvergi aufúsugestur nema á minkabúum. „Vona að það takist að vinna á dýrinu sem fyrst,“ sagði Steinn Leó Sveinsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs er Feykir spurði frétta í morgun.

Hér fyrir neðan má sjá minkinn i makindum sínum á ísilagðri Sauðánni í gærmorgun. Myndataka: Dagur Amlin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir