Minniboltamót Tindastóls

Unglingaráð körfuknattleiksdeildarinnar stendur fyrir fyrsta sjálfstæða minniboltamótinu sem haldið hefur verið á Sauðárkróki, þann 13. nóvember n.k. Krakkar frá 6 - 11 ára munu taka þátt í því.

Það hefur færst í aukana síðustu árin að félög út um landið, hafa sett upp sérstök minniboltamót sem ætluð eru aldrinum 6-11 ára. Á þessum mótum hefur áherslan verið lögð á skemmtun en stigaskor og keppni lögð til hliðar.

Unglingaráð körfuknattleiksdeildarinnar ákvað í sumar að sækja um dagsetningu fyrir minniboltamót á Sauðárkróki og varð dagsetningin 13. nóvember fyrir valinu. Ákveðið var að einbeita sér að bæjarfélögum, skólum og félögum á norður- og austurlandi í kynningu á mótinu og hefur verið unnið í kynningarmálunum núna undanfarið.

Í dag liggur fyrir að auk krakka frá Tindastóli, komi lið frá Skallagrími, Þór Akureyri, Kormáki Hvammstanga, Skagaströnd og jafnvel fleiri stöðum. Hugmyndin er að byrja þetta smátt, en efla mótið ár frá ári.

Frá Tindastóli munu krakkar í míkróboltanum (1. - 2. bekk) taka þátt, minnibolti yngri (3. - 4. bekkur) og minnibolti eldri (5. - 6. bekkur) sömuleiðis. Reglur verða aðlagaðar að þátttakendum hverju sinni og heimilt er að senda kynjablönduð lið.

Mótsgjaldið verður kr. 1500 og fá krakkarnir boli til minningar og kjarngóða sameiginlega máltíð í lok móts. Ýmis körfuboltaskemmtiatriði verða síðan í boði samhliða mótinu.

Nánari fréttir verða fluttar af mótinu þegar nær dregur.

Hafi einhver lið á norður- og austurlandi, jafnvel vesturlandi, áhuga á að koma á mótið, er þeim bent á að hafa samband við Rúnar Birgi Gíslason mótstjóra í síma 618-4910 eða á netfanginu runar@mikkivefur.is

Fleiri fréttir