Minnihluti hefur áhyggjur af fjárhagsáætlun ársins 2011
Á síðasta fundi byggðaráðs var fjárhagsáætlun ársins 2011 fyrir sveitarsjóð Skagafjarðar og stofnanir hans lögð fram. Bókuðu fulltrúar allra flokka um áætlunina sem gerir ráð fyrir 59 þúsund króna halla á rekstri A og B- hluta sveitasjóðs.
Rekstrartekjur A-hluta eru áætlaðar 2.716 milljónir króna og rekstrargjöld án fjármagnsliða 2.668 milljónir króna. Fjármagnsliðir 140 milljónir króna. Rekstrarhalli ársins 92.000 þús.kr.
Samantekin áætlun fyrir A og B-hluta sveitarsjóðs gerir ráð fyrir tekjum að upphæð kr. 3.110 milljónum króna, rekstrargjöldum án fjármagnsliða 2.956 milljónir króna og fjármagnsliðum 213 milljónir króna. Rekstrarhalli ársins 59.000 þús.krónur.
Handbært fé frá rekstri er áætlað að verði 40.374 milljónir króna í A-hluta, en 193.686 milljónir króna í samstæðunni í heild.
Fjárfesting samstæðunnar er áætluð samtals 152 milljónir króna, sala eigna 39 milljónir króna, afborganir lána 244 milljónir króna og ný lántaka 161 milljónir króna.
Byggðarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætluninni til síðari umræðu í sveitarstjórn.
Bjarni Jónsson og Stefán Vagn Stefánsson óska bókað:
Lögð er áhersla á að í fjárhagsáætlun verði grunnþjónustan varin þrátt fyrir minni tekjur og aukinn kostnað. Sveitarfélagið gegnir afar mikilvægu hlutverki í nærþjónustu á sviði fræðslu- og velferðarmála, sem þarf að njóta forgangs ásamt öðrum lögbundnum verkefnum. Þau drög sem nú liggja fyrir bera þess merki að grunnþjónusta sé varin. Það sést meðal annars með því að eingöngu hafa úthlutaðir fjárhagsrammar verið hækkaðir hjá félagsþjónustu, í fræðslumálum og íþróttamálum barna. Vistunargjöld á leikskólum verða ekki hækkuð, gjöld vegna dagvistar barna í skólavistun eru ekki hækkuð, fasteignaskattar eru ekki hækkaðir, tekjuviðmið við útreikning á afslætti á fasteignaskatti hækkuð til að hlífa þeim tekjulægri og fleira mætti nefna.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óskar bókað:
Samfylkingin vill að í fjárhagsáætlun verði grunnþjónusta varin þrátt fyrir minni tekjur og aukinn kostnað. Sveitarfélagið gegnir afar mikilvægu hlutverki í nærþjónustu á sviði fræðslu- og velferðarmála, sem þarf að njóta forgangs ásamt öðrum lögbundnum verkefnum. Meirihlutinn hefur ekki sýnt pólitíska forustu með stefnumótun og forgangsröðun. Þess vegna er gerð fjárhagsáætlunar ómarkviss. Ánægjulegt er að sjá samhljóm í bókun meirihlutans og texta Samfylkingarinnar a.m.k. í upphafi bókunarinnar
Sigurjón Þórðarson óskar bókað:
Fjárhagsáætlunin felur í sér halla á rekstri sveitarfélagsins sem er mikið áhyggjuefni, þar sem það skerðir möguleika sveitarfélagsins á komandi árum til þess að þjóna íbúum. Frjálslyndir taka sömuleiðis undir bókanir meirihlutans og Samfylkingarinnar um að standa beri vörð um grunnþjónustuna en telja mun brýnna að beina ályktunum um forgangsröðun og skerðingu ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega gegn svívirðilegri aðför Guðbjarts Hannessonar, heilbrigðisráðherra að Heilbrigðisstofuninni Sauðárkróki.
Jón Magnússon óskar bókað:
Neikvæð niðurstaða fjárhagsáætlunarinnar vekur miklar áhyggjur um rekstrarafkomu sveitarfélagsins á komandi árum. Brýnt er að vinna markvisst að hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins. Vinnu að því markmiði verður að hefja strax á nýju ári af mikilli festu.