Mjólk er góð! - Áskorandapenni - Vala Rós Ingvarsdóttir
Ég er fædd og uppalin á Skagaströnd 1966, þar var gott að alast upp, endalaus ævintýri í fjörunni á höfðanum og engar dauðar stundir hjá okkur krökkunum.
Á mínu heimili var engin lúxus bara venjulegt heimili þar sem pabbi vann sem smiður og kom heim í hádegi í mat og lagði sig svo í nokkra stund. Mamma vann það sem til féll hverju sinni.
Í þá tíð var sælgæti, gos, ávextir og þess háttar ekki til nema um jólin, morgunkorn, Cheerios, Cocoa Puffs var bara ekki til og í þau fáu skipti sem ég komst í þess háttar var alger dásemd.
Ég er ein af sex systkinum og elsti bróðir minn var fluttur að heiman þegar ég fæddist. Sumarið sem ég varð tólf ára fór ég inn á Blönduós til að passa börnin hans þrjú. Mjög skemmtilegur tími enda ég alltaf verið mikið fyrir börn og auk þess fékk ég frjálsar hendur til að baka og stússa á heimilinu þar sem þau hjónin unnu bæði úti.
Kona bróður míns á ættir að rekja á Steiná í Svartárdal, og fórum við þangað annað slagið. Í þetta skipti gistum við og mikill spenningur fyrir degi í sveitinni þó ég væri nú ekki mikil sveitakona í mér, við áttum að vísu kött sem hét Gústi en okkur Gústa kom ekki vel saman.
Ég vakna um morguninn spennt að byrja daginn, fer inn í eldhús og viti menn, þar stendur Cheerios pakki á borðum. Ég fékk vatn í munninn og fyllti skálina mína vel, einhverra hluta vegna var mjólkin í könnu en þannig var það ekki á mínu heimili. Ég tók fyrstu skeiðina alveg grunlaus, auðvitað var mjólkin beint af spenanum, volg og engu lík því sem ég átti að venjast.
Þarna fór græðgin með mig, en eins og okkur systkinum var uppálagt þá kláraði maður alltaf af diskinum sínum, annað var ekki boðlegt í þá tíð.
Hver skeið var mér alger pína og komst ég í gegnum þetta með miklum herkjum. Þetta varð mér góð áminning um að láta græðgina ekki hlaupa með mig í gönur.
Vala Rós skorar á frænku sína Guðrúnu Þórbjarnardóttur að koma með pistil.
Áður birst í 8. tbl. Feykis 2018
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.