Mokveiði í grásleppunni

Steini G SK kemur til hafnar með tæp 6 tonn. MYND FRÁ ÞORVALDA
Steini G SK kemur til hafnar með tæp 6 tonn. MYND FRÁ ÞORVALDA

Aflafréttir segja frá mikilli grásleppuveiði á Skagafirði síðustu daga en nýr grásleppulisti var birtur í gær. Þegar listinn er skoðaður kemur í ljós að bátar sem hafa verið við veiðar á Skagafirði voru að fiska mjög vel og má segja að um mokveiði sé að ræða. Í fréttinni er tekið sem dæmi að Hafey SK hafi þurft tvær ferðir til að ná öllum sínum 15 trossum í land.

Samtals var aflinn um fimm tonn hjá Hafey og Þorgrímur SK fékk 4,3 tonn í fyrsta grásleppuróðri sínum. Þá hefur Steini G SK farið í stærsta aflatúrinn en þeir feðgar, Þorvaldur Steingrímsson og Þráinn Þorvaldsson, sóttu 5,6 tonn af grásleppu meðfram ströndinni áleiðis að Selnesi á Skaga.

Í frétt Aflafrétta segir: „Í sjó voru 14 trossur og voru 6 net í trossu eða alls 84 net. Þegar leið á dráttinn hjá þeim feðgum þá fylltist eiginlega allt um borð, lestin var orðin full, nokkur kör á dekkinu voru sneisafull og nokkuð var laust á dekki. Þegar í land kom þá vigtaði úr bátnum alls 5,8 tonn og var grásleppa af því 5,6 tonn. Þorvaldur sagði að hann hefði stundað grásleppuveiðar núna í um 10 ár en aldrei áður hefur veiðin byrjað jafn vel og er að gera núna. Aflinn fer allur til Vignis á Akranesi og var aflaverðmætið fyrir þennan dag um 1,3 milljónir króna.“

Grásleppuveiðilistinn >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir