Möstur reist á skíðasvæði Tindastóls
Undanfarna daga hafa staðið yfir framkvæmdir við skíðasvæðið í Tindastól þar sem verið er að setja upp tíu möstur við nýja lyftu. Með tilkomu hennar mun aðstaðan gjörbreytast og til verða lengstu skíðabrekkur á landinu.
Viggó Jónsson, framkvæmdastjóri skíðadeildar Tindastóls og staðarhaldari, segir að lyftan verði um 1 km að lengd og með tilkomu hennar opnist möguleiki á margar og fjölbreyttar skíðaleiðir sem henta bæði byrjendum sem lengra komnum. Framkvæmdir hafa gengið vel og segir Viggó að búið sé að gefa út að skíðasvæðið verði opnað þann 1. desember næstkomandi.
Á fundi stjórnar SSNV síðastliðinn þriðjudag samþykkir hún stuðning við verkefnið fyrir sitt leyti upp á kr. 10 millj. með fyrirvara um samþykki haustþings en kostnaðaráætlun við uppsetningu lyftunnar hljóðar upp á kr. 11.855.463.-. „Þetta er mikil viðurkenning á starfi deildarinnar að fá svona styrk og erum við þakklát fyrir. Það má líka koma fram að mikil sjálfboðaliðsvinna hefur farið fram við verkið t.d. voru allar undirstöðurnar settar upp í sjálfboðavinnu,“ segir Viggó og bætir við að uppbygging svæðisins hafi alltaf notið góðs af sjálfboðaliðum.
Verktakar við uppsetningu mastranna eru Þ. Hansen og Friðrik Jónsson ehf.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.