Mottumarshátíð í Miðgarði í kvöld
Kiwanisklúbburinn Drangey og Krabbameinsfélag Skagafjarðar stendur fyrir mottumarshátíð í menningarhúsinu Miðgarði í kvöld, 15. mars. Hátíðin hefst klukkan 19 og er aðgangur ókeypis en þeir sem vilja styrkja Krabbameinsfélag Skagafjarðar geta látið fé af hendi rakna í þar til gerðan kassa er verður í anddyrinu í Miðgarði.
Sr. Dalla Þórðardóttir, formaður Krabbameinsfélagsins mun setja hátíðina en svo tekur Ólafur Jónsson, formaður krabbameinsnefndar Kiwanisklúbbsins Drangeyjar, við og kynnir dagskrá.
María Reykdal, sálfræðingur, segir frá sálgæslu og sálfræðiaðstoð við krabbameinssjúkra.
Þorsteinn Þorsteinsson, yfirlæknir, fer yfir það hverju hefur verið áorkað og hvernig speglunarverkefnið stendur.
Gunnsteinn Björnsson, forseti Kiwanisklúbbsins, verður með óvænt atriði og Karlakórinn Heimir býður hátíðargestum á opna æfingu.
Í tilkynningu segir að Krabbameinsfélag Skagafjarðar leiti ávallt að nýjum félögum og verður fulltrúi þess í anddyri Miðgarðs og tekur á móti og skráir niður þá sem hug hafa á að ganga til liðs við félagið.
Kiwanisklúbburinn Drangey er 40 ára á þessu ári en hann var stofnaður 16. maí 1978. Af því tilefni ætlar klúbburinn að gera margt til þess að fagna áfanganum og er mottumarshátíðin liður í því.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.