Mun ekki draga úr umfjöllun af Norðurlandi vestra
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlun stefnir RÚV að því að efla starfsemi sína á landsbyggðinni og er nú unnið að stefnumótun þess efnis. Skagfirðingum þótti það því skjóta skökku við þegar tæki úr aðstöðu sem RÚV hafði til afnota á Sauðárkróki voru flutt annað.
Að sögn Freyju Daggar Frímannsdóttur, sem nýlega var ráðin svæðisstjóri RÚV á Norðurlandi, hefur þessi flutningur ekki haft áhrif á umfjöllun af svæðinu og mun ekki gera það.
Freyja segir að þessa dagana sé verið að vinna hugmyndir og stefnumótun um eflingu RÚV á landsbyggðinni, meðal annars með það að markmiði að auka svæðisbundna miðlun efnis af landsbyggðinni á vefnum. „Sú vinna er í fullum gangi og of snemmt á þessari stundu að útlista nákvæmlega hvernig útfærslan kemur til með að verða,“ segir Freyja Dögg.
Hún sagði jafnframt að tækin sem til staðar voru á Sauðárkróki hefðu verið flutt þaðan fljótlega eftir að reglulegar útsendingar þaðan hættu sl. sumar, það er þegar Sagnaslóð var tekin af dagskrá. „Það þýðir hinsvegar ekki að ekki séu fluttar fréttir eða efni framleitt á Norðvesturlandi eða Sauðárkróki. Eðli fjölmiðlunar hefur breyst hratt undanfarin ár og í verkefni sem áður þurfti flókin tæki og tól dugir oft að vera með fartölvu og gott netsamband. Því segir það ekki endilega til um það hvort að verið sé að vinna efni af ákveðnum svæðum hvort að þar séu staðsett sérstök tæki til útvarpsvinnslu eða ekki,“ segir Freyja Dögg ennfremur.