Myndlistarsýning í Áshúsi í tilefni af útgáfu bókarinnar Sumardagur í Glaumbæ

Listamaðurinn Jérémy ásamt Berglindi Þorsteinsdóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga. MYND AÐSEND
Listamaðurinn Jérémy ásamt Berglindi Þorsteinsdóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga. MYND AÐSEND

Byggðasafn Skagfirðinga stendur fyrir listsýningu í Áshúsi í Glaumbæ þar sem sýndar verða myndirnar sem prýða bókina Sumardagur í Glaumbæ sem er einmitt að koma út þessa dagana. Sýningin verður opnuð 18. september. Myndirnar eru málaðar af franska listamanninum Jérémy Pailler sem þrívegis hefur heimsótt Ísland, tvívegis Nes listamiðstöð á Skagaströnd og einnig dvaldi hann og vann að list sinni í Kakalaskála. Að sjálfsögðu tók hann ástfóstri við landið okkar.

Barnabókin er samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga og Jérémy en sögusviðið er Glaumbær á seinni hluta 19. aldar. Sagan er að mestu byggð á frásögnum af fólki sem bjó í Glaumbæ og Skagafirði á þeim tíma. Lesendur fá að vera með Sigga litla, Jóhönnu vinkonu hans og hundinum Ysju einn dag í lífi þeirra. Bókinni er ætlað að veita innsýn í daglegt líf Íslendinga á árum áður út frá sjónarhóli barns.

Sýningin verður opin frá kl. 10-18 dagana 18.-20. september en eftir það frá 10-16 virka daga. Kaffihúsið í Áshúsi verður opið um helgina og því tilvalið að líta við í Glaumbæ, kíkja á sýningu og fá sér rjúkandi bolla og með því. Bókin verður til sölu á staðnum og áhugasömum býðst einnig að kaupa listaverkin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir