Mývatnssveit töfraland jólanna - Heimboð jólasveinanna
Nú sem fyrr verða jólasveinarnir með heimboð í Dimmuborgir í Mývatnssveit, 22. nóvember á milla 15:00 og 15:30. Verða sveinarnir þrettán þar allir og aldrei er að vita upp á hverju þeir geta tekið enda orðlagðir fyrir að vera hrekkjóttir og stríðnir. Á eftir bjóða svo jólasveinarnir í „jólasveinakaffi“ í félagsheimilinu Skjólbrekku þar sem borð munu svigna undan kræsingum sem þeir hafa útbúið sjálfir.
Hljómsveit frá Tónlistarskóla Mývatnssveitar mun flytja nokkur jólalög og fleira skemmtilegt verður í boði. Hvetja jólasveinarnir alla til að mæta því þeir hafa ákveðið að veitingar séu ókeypis þar sem margir eigi ekki allt of mikið af peningum þessa dagana. Jólasveinarnir vilja líka að við búum sjálf til gjafirnar í ár og svo umfram allt að vera góð við hvort annað, annars er hætta á því að þeir verði að setja kartöflur í skóna í desember.