Námsferð átta starfsmanna HSN til De Hogeweyk í Hollandi

Heilbrigðisstarfsmenn í námsferð til Hollands. Frá vinstri: Sigurlaug, Gilla, Jóhanna, Guðrún, Ásta, Ólína, Fjóla og Lulla.  MYND AÐSEND
Heilbrigðisstarfsmenn í námsferð til Hollands. Frá vinstri: Sigurlaug, Gilla, Jóhanna, Guðrún, Ásta, Ólína, Fjóla og Lulla. MYND AÐSEND

Átta sjúkraliðar í svæðisdeild Norðurlands vestra fóru í námsferð til Hollands nú í sumarbyrjun og var aðal markmiðið að skoða þar Alzheimer-hverfið De Hogeweyk sem í raun er meira þorp en hverfi og staðsett rétt fyrir utan Amsterdam. „Það er erfitt að lýsa tilfinningunni sem maður fær þegar maður er inni í hverfinu en markmið De Hogeweyk þorpsins er að auka lífsgæði þeirra einstaklinga sem þar búa. Þetta er allt öðruvísi en við eigum að venjast hér á Íslandi,“ segir Sigurlaug Dóra Ingi-mundardóttir (Lulla).

Lulla er sjúkraliði á HSN á Sauðárkróki og var tilbúin að segja lesendum aðeins frá heimsókninni í félagi við samferðafólk sitt en auk hennar voru það Ásta Karen, Ólína Rut, Jóhanna, Gilla, Sigurlaug R, Guðrún Elín og Fjóla sem fóru í heimsókn til De Hogeweyk. „Þorpið er lokað og er inni í öðru hverfi sem heitir Weesp. Þarna búa alls 188 einstaklingar sem eru með heilabilun eða Alzheimer. Einstaklingurinn nýtur mun meira sjálfræðis en við þekkjum hér heima á Íslandi. Þeir fara sjálfir út ef þá langar að fara í göngu um hverfið án eftirlits, þó svo að allir starfsmenn á svæðinu séu til staðar ef þess þarf eða eitthvað kemur upp á hjá þeim,“ en hér á Íslandi er það þekkt að Alzheimer-sjúklingar eru hafðir á lokuðum deildum til að tryggja öryggi þeirra en með tilheyrandi skorti á lífsgæðum.

Í Alzheimerhverfinu sem starfsmenn HSN kynntu sér eru 27 íbúðir en þar búa 6-7 einstaklingar á hverju heimili og allir íbúar hafa sér herbergi út af fyrir sig. Á heimilinu er einnig sameiginleg borðstofa og setustofa. „Einstaklingar eru valdir saman inn á hvert heimili og fer það eftir lífsstíl, áhugamáli, smekk og bakgrunni þessara einstaklinga, hverjir eru valdir saman inn á hvert heimili. Á öllum heimilum er einn sjúkraliði og annar starfs-maður sem aðstoðar þessa einstaklinga með heimilishald og annað tilfallandi sem þarf að gera á venjulegum heimilum,“ segir Lulla og nefnir að um 100 sjálfboðaliðar starfi í þorpinu.

Einstök upplifun að heimsækja De Hogeweyk

„Í De Hogeweyk er sagt að virkni og hreyfing séu lykilþættir í umönnun einstaklinga með heilabilun. Þarna eru fjórir fallegir garðar sem þau geta gengið um, sest niður við fallega gosbrunna eða á bekki. Íbúar velja hvað þeir hafa í matinn og fara út í búð með starfsmanni heimilisins til að kaupa í matinn, það sem vantar inn á heimilið og fleira. Íbúarnir taka virkan þátt í heimilishaldi eins og eldamennsku, þrifum og fleiru.“

Lulla segir að í De Hoge-weyk sé alls konar klúbbastarf í gangi; tónlistarklúbbar, leik-hús, bakstur, smiðja fyrir handavinnu og margt fleira. „Í hverfinu er ýmsa þjónustu að finna en þar er matvörubúð og veitingahús en gestum og gangandi úr nágrenni De Hogeweyk er velkomið að koma og borða þar – kaffihús á daginn en pöbb á kvöldin. Þangað geta aðstandendur komið og notið góðra stunda með ættingja sínum sem býr í þorpinu,“ segir Lulla og bætir við að önnur þjónusta, eins og hárgreiðslu- og snyrtistofa, sé einnig á staðnum.

Á kvöldin fara starfsmenn heim úr húsunum og næturvaktin kveikir á hljóðkerfi til að hægt sé að fylgjast með á nóttinni hvort einstaklingar fari á stjá eða detti fram úr rúmi. „Okkur var sagt að flest allir sofi vel alla nóttina,“ segir Lulla en næturbrölt og óreglulegur svefn er eitthvað sem hrjáir oft fólk með heilabilun.

Lulla segir að þær stöllur hvetji alla heilbrigðisstarfsmenn til að heimsækja De Hogeweyk í Amsterdam því það sé einstök upplifun. „Það væri óskandi að geta framkvæmt eitthvað þessu líkt hér á landi því við sáum hvað fólkinu leið vel að geta verið úti ef það vildi og fá sér góðan göngutúr um svæðið en það er svo mikilvægt fyrir þetta fólk að fá hreyfinguna og frelsið – að geta verið eins og heima hjá sér. Við erum allar sammála um að á þessum stað myndum við vilja vinna vegna þess að það er frábært starf sem þarna er unnið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir