Nasi mættur í Kýrholt
Jarðborinn Nasi er kominn í Kýrholt í Skagafirði og á að taka við þar sem Trölli hætti á síðasta ári. Það óhapp varð að borkrónan festist og hafði Trölli ekki nægt afl til að losa hana.
Nú er Nasi mættur á svæðið en hann hefur um tíu sinnum meiri lyftigetu en Trölli og ætti því að geta leyst krónuna. Að sögn Páls Pálssonar hjá Skagafjarðarveitum er búið að „fiska“ dótið sem Trölli skildi eftir í holunni en nú er verið að bíða eftir stærri vatnsdælum sem eiga þrýsta vatni niður í holuna sem aftur þrýstir jarðvegi upp úr henni svo að borun geti haldið áfram.
Ný sjóveita var prufukeyrð á Sauðárkróki fyrir nokkru og á hún að sjá rækjuvinnslunni fyrir nothæfu vatni til framleiðslunnar. Rækjuvinnsla er einn vatnsfrekasti iðnaður sem stundaður er á landsbyggðinni og getur því skapað vandamál þar sem vatnslítið er. Má til dæmis bera saman að kaldavatnsnotkunin hjá rækjuvinnslunni Dögun er meiri en þarf fyrir bæjarfélagið Sauðárkrók. Páll segir að borholurnar séu 30 metra djúpar en sjórinn er tekinn inn á um 29 metra dýpi og var mjög hreinn í upphafi. En eftir að byrjað var að dæla á fullum afkostum fór að koma sandur með og hætt var í bili að nota vatnið. Núna er beðið eftir sandskiljum frá Bandaríkjunum svo aftur verði hægt að dæla nothæfu vatni upp úr holunni.