Nauðsynlegt að huga að lausamunum
Á heimasíðu VÍS er fólk hvatt til að vera á varðbergi og fylgjast vel með veðurspám vegna djúprar lægðar sem á að ganga yfir landið á morgun, sunnudag. Vísað er í orð Einars Sveinbjörnssonar hjá Veðurvaktinni: „Óvenjulegt veðurkerfi gengur yfir landið á sunnudag með stormi nú í lok sumars.“
„Það sem gerir þetta sérstakt er að leifar af fellibylnum Cristobal berast norður á Grænlandshaf og í veg fyrir nýmyndaða lægð. Slíkt gerist stundum í sumarlok eða snemma hausts og úr verður veðurkerfi sem fylgjast þarf grannt með.“
Búast megi við djúpri lægð og á undan skilum hennar hvessir um land allt, sérstaklega sunnan- og vestan til. Á höfuðborgarsvæðinu megi gera ráð fyrir um 20 m/s af SA og ASA snemma á sunnudagmorgun en þó allt að 25 m/s í efri byggðum og á Suðurnesjum. „Veðrið færist svo yfir Snæfellsnesið. Skilin ganga hratt norður yfir landið og norðan og austantil hvessir einnig um tíma,“ segir Einar.
„Í lok sumars eru garðhúsgögn, grill, trampólín og aðrir lausamunir víðast enn úti. Nauðsynlegt er að ganga frá þeim, setja inn eða fergja. Einnig er mikilvægt að verktakar tryggi öryggi vinnupalla, búnaðar og byggingarefnis. Reynslan sýnir að tjón og hjálparútköll vegna foks verða oftast vegna ófullnægjandi frágangs,“ segir loks á heimasíðunni.