Nauðsynlegt að klæða Blönduósflugvöll

Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar.
Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar.

Í júní 2021 skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vinnuhóp með það hlutverk að leggja mat á lendingarstaði út frá öryggishlutverki þeirra og var gefin út skýrsla sem kom út í nóvember sama ár. Þar kemur fram að til að flugvöllurinn á Blönduósi nýtist flugvélum Landhelgisgæslunnar og sjúkraflugvélum við erfiðar aðstæður þurfi að leggja á hann bundið slitlag.

Sveitarstjórnarfólk, ásamt fleirum, hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að klæða völlinn enda hafa flugrekendur veigrað sér við að nota völlinn en steinkast getur valdið kostnaðarsömum skemmdum á flugvélum sem aftur dregur úr notagildi flugvallarins í því þýðingarmikla hlutverki sem hann gegnir sem öryggisþáttur í þéttu neti sjúkraflugvalla.

Fyrir um tveimur árum lauk framkvæmdum við flugvöllinn en þá var miðað að því að tryggja að völlurinn yrði nothæfur fyrir sjúkraflugið og nú er komið að næsta áfanga.

Feykir hafði samband við Guðmund Hauk Jakobsson, forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar, og forvitnaðist um málið. Hann segir að allra nauðsynlegustu framkvæmdunum hafi lokið fyrir tveimur árum þ.e. aðflugshallaljós og RNP aðflug og var það einungis fyrsta skref að hans mati. Hann bendir á að samkvæmt fyrrnefndri skýrslu um öryggi lendingarstaða er flugvöllurinn á Blönduósi eini skilgreindi sjúkraflugvöllurinn sem er án slitlags og það sé bara ekki forsvaranlegt. Einnig þurfi að tryggja að þjónusta verði á flugvellinum svo hægt sé að taka á móti flugvélum eða þyrlum.

Nú hafa pólitíkusar gefið loforð um að fylgja málinu eftir á Alþingi, hafa þeir staðið við það eða hafa þeir brugðist?
-Þetta mál snýr bara þannig að þegar við fáum heimsóknir frá ráðamönnum þá eru okkur allir sammála um mikilvægi þessa verkefnis og menn og konur hafa slegið sér á brjóst og sagt að þetta verði nú bara að raungerast en því miður þá virðist fenna yfir málið um leið og yfir sýslumörk er farið.

Það hefur verið bent á að nóg sé að hafa lendingarstað fyrir sjúkraþyrlur á minni stöðum á landsbyggðinni, hvert er þitt álit á því?
-Það er eflaust hægt að færa einhver rök fyrir því að það sé betra, en á móti segi ég að þá þarf væntanlega að fjölga þyrlum hafa þær staðsettar víðar á landinu. Þetta er samt aðeins eins og að bera saman epli og appelsínur. Sjúkraflugvélarnar eru búnar jafnþrýstibúnaði en það eru þyrlurnar ekki, viðbragðsflýtir sjúkraflugvéla er mun meiri en þyrlunnar, flugvélin getur verið komin á innan við 20 mínútum en þyrlan er um klukkutíma að fljúga auk tímans sem tekur að gera flugklárt er mér sagt og svo er töluverður munur á kostnaði.

Ertu með einhverjar tölur um sjúkraflug síðasta árs á Blönduós og hvort einhvern tímann hafi verið hætt við flug vegna aðstæðna á vellinum?
-Samkvæmt mínum heimildum voru 19 sjúkraflug, flugvélar og þyrla, sem lentu á flugvellinum á Blönduósi á síðasta ári og eitthvað var af tilfellum þar sem þyrla fór beint á vettvang. Og já, það eru a.m.k. fjögur tilfelli þar sem flugmenn neituðu að lenda á flugvellinum á Blönduósi af misjöfnum ástæðum.

Hversu mikilvægt er það fyrir Húnavatnssýslurnar að völlurinn verði malbikaður að þínu mati?
-Til að byrja með þá er flugvöllurinn ekki bara fyrir íbúa Húnavatnssýslna, hann gegnir líka gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir þjóðveg 1 og vegfarendur sem um hann fara svo dæmi sé tekið. Flugvöllurinn hefur bjargað mannslífum og það þarf ekki að horfa lengra en til síðastliðins árs, leyfi ég mér að fullyrða. Hvers virði er mannslíf er hægt að spyrja á móti. Flugvöllurinn er lífæð og um hann þurfa okkar brýnustu bjargir að fara þegar svo ber við og hver mínúta skiptir máli.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Já takk, ég skora hér með á innviðaráðherra og ríkisstjórn að upplýsa okkur um það hvenær vænta megi þess að slitlag verði sett á flugvöllinn. Ég vil líka benda ráðamönnum á það að á þessu ári er gert ráð fyrir því að nýr Þverárfjallsvegur verði tekinn í notkun og þá verður lagt slitlag á rúmlega 16 km á nærsvæði flugvallarins og teljum við því einboðið að slitlag verði lagt á völlinn á sama tíma til að nýta möguleg samlegðaráhrif, þ.e. eigi síðar en sumarið 2023. Þó að sjúkrabílar séu notaðir við ýmsa sjúkraflutninga sem teljast ekki til bráðaflutninga þá ber að hafa það í huga að læknir á vakt sem þarf að fara með sjúkrabílunum í kannski 8-12 klukkutíma ferðalag sinnir engum hérna heimavið á meðan, það segir sig sjálft.

Fyrir þá sem vilja kynna sér skýrsluna er hægt að nálgast hana á vef Stjórnarráðsins HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir