Naum tap í Keflavík - töpuðu 82-76

Ekki náðu okkar menn að fylgja eftir sigrinum á Keflavík í bikarkeppninni í kvöld, en strákarnir töpuðu leiknum 82-76 eftir kaflaskiptan leik.

Liðin skiptust á að skora í upphafi leiksins en í stöðunni 6-4 fyrir Keflavík, kom 10-0 lota hjá Tindastóli og staðan orðin 6-14. Eftir það var leikhlutinn í jafnvægi og staðan eftir hann var 13-20 fyrir okkar menn. Helgi Rafn var þarna kominn með 7 stig, Hayward og Helgi Freyr 4 hvor, Rikki og Kiki 2 hvor og Sean 1. Keflvíkingarnir skiptu mun meira inn á í þessum leikhluta en í bikarleiknum á sunnudaginn var og vakti það athygli áhorfenda.

Trifunovic skoraði fyrstu körfu Keflvíkinga í öðrum leikhluta og setti ofan í vítaskot að auki. Á fyrstu tveimur og hálfu mínútunni í leikhlutanum skoruðu heimamenn 12-2 og komust yfir 25-22. Tindastóll tók þá leikhlé og við það hresstust okkar menn og skoruðu næstu 7 stig. Leikurinn jafnaðist síðan í stöðunni 31-31. Næstu þrjár mínúturnar voru leikmönnum mislagðar hendur því ofan í vildi boltinn ekki. Hörður Axel fór þá í ham hjá Keflvíkingum og skoraði þá einn og sjálfur 8 stig á móti einum þristi hjá Sean og staðan orðin 39-34 og tvær og hálf mínúta eftir af fyrri hálfleik. Áfram héldu gestgjafarnir, nú komnir á bragðið og juku muninn í 43-34 áður en Sean náði að laga stöðuna aðeins með þriggja stiga körfu auk þess sem tvö víti fylgdu í kjölfarið frá Hayward. Það var síðan Trifunovic sem tróð boltanum ofan í körfu okkar manna rétt áður en lokaflautið gall og staðan 45-39 í hálfleik.

Tindastóll fékk á sig 32 stig í leikhlutanum sem Borce hefur ekki verið ánægður með. Í hálfleik var Hayward kominn með 14 stig, Sean 8, Helgi Rafn 7 og þeir Helgi Freyr og Rikki 4 stig hvor. Kiki var aðeins með 2 stig eftir fyrri hálfleikinn og munaði um minna. Þriggja stiga körfurnar voru ekki að detta fyrir okkar menn og munaði það talsverðu. Að sama skapi misstu okkar menn tökin á fráköstunum í öðrum leikhluta eftir að hafa dómínerað þau í fyrsta leikhlutanum.

Sean setti fyrstu körfu þriðja leikhluta og skömmu síðar fékk Kiki sína þriðju villu. Gunnar Einarsson kom Keflavík í 48-41 með þriggja stiga körfu en þá vöknuðu okkar menn og Helgi Freyr kom Tindastól yfir 50-52 með þriggja stiga körfu þegar um 6 mínútur voru eftir af leiknum. Sean bætti um betur, með annarri þriggja stiga körfu og staðan orðin 50-55 þegar Keflvíkingar tóku leikhlé og 5.14 eftir af leikhlutanum. Tindastóll hafði þarna skorað 16-5 í upphafi leikhlutans. Keflvíkingar náðu áttum eftir leikhléið fyrir tilstilli Trifunovic en hann jafnaði leikinn í 57-57 og allt á suðupunkti. Aftur var jafnt í stöðunni 59-59 en Keflvíkingar kláruðu leikhlutann betur og fóru inn í síðasta leikhlutann með eins stigs forystu 62-61 og útlit fyrir gríðarlega spennandi lokaleikhluta. Þegar hérna var komið við sögu var Sean stigahæstur með 19 stig, Hayward 16, Helgi Rafn 9 Helgi Freyr 7, Kiki enn í ströggli sóknarlega séð með 6 stig og Rikki með 4.

Hörður Axel setti fyrstu stig fjórða leikhluta en Svavar jafnaði leikinn með þriggja stiga körfu og jafnframt sínum fyrstu stigum í leiknum 64-64. Næstu 5 stig voru Keflvíkinga og staðan 69-64 þegar þrjár mínútur voru búnar af leikhlutanum. Borce tók leikhlé þegar tæplega 6 mínútur lifðu leiks og Kiki kom svellkaldur úr því og setti tvö stig. Keflavík komst síðan í 71-66, en Helgi Rafn kom þá með fjögur stig í röð og staðan 71-70 þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Kiki fékk þá sína fimmtu villu og Trifunovic kom þeim í 73-70, en Hayward jafnaði með þriggja stiga körfu skömmu síðar. Aftur var Trifunovic á ferðinni og kom hann Keflavík í 75-73 með 2.23 eftir og bætti svo tveimur stigum við 77-73 og aðeins 1.22 eftir. Hann var ekki hættur og tróð boltanum ofan í þegar hálf mínúta var eftir og Keflvíkingar lönduðu svo sigrinum undir lokin á vítalínunni. Mikill hiti var í leikmönnum undir lokin og fékk Helgi Rafn brottrekstrarvillu sem þýðir að hann verðir væntanlega í leikbanni gegn Njarðvík í næstu viku.

En Tindastólsliðið sýndi það í kvöld að þeir geta unnið hvaða lið sem er hvort sem það er heima eða heiman. Stígandi hefur verið í liðinu og menn spilað betur og betur. Næsti leikur er fimmtudaginn 16. desember gegn Njarðvíkingum hér heima í Síkinu.

Fleiri fréttir