Nemendur Höfðaskóla prjóna teppi fyrir Prjónagleði
Höfðaskóli hefur undanfarið tekið þátt í verkefni í samvinnu við Textílsetrið á Blönduósi og er markmið þess að auka þekkingu og innsýn nemenda í það hve samofin ullin og prjónaskapur er þjóðararfi og sögu landsins.
Jóhanna Pálmadóttir forstöðumaður Textílsetursins heimsótti nemendur í 4.-10. bekk og þar með hófst verkefnið formlega en það felst í því að nemendur prjóna í kennslustundum og frímínútum, bæði í kennslustofum og á göngum skólans. Í verkið er notast við ull í fánalitunum og eru prjónaðir ca 20x20cm bútar og verða þeir svo settir saman í teppi. Allir bekkir skólans koma að einhverju leyti að verkefninu. Verkið verður til sýnis á Prjónagleði 2018 sem haldin verður á Blönduósi dagana 8.-10. júní næstkomandi og í framhaldi af því mun það prýða súlu í Leifstöð.