Nemendur yngsta stigs Árskóla fengu endurskinsvesti

Frá afhendingunni. Hinir grímuklæddu eru frá vinstri: Óskar Björnsson, skólastjóri, Ragnheiður Matthíasdóttir, deildarstjóri yngsta stigs, Gunnar Línberg Sigurjónsson, kjörforseti Kiwanisklúbbsins Drangeyjar, Sigurbjörn Bogason, þjónustustjóri hjá VÍS, Ingólfur Guðmundsson og Emil Hauksson Kiwanisfélagar. Mynd: PF.
Frá afhendingunni. Hinir grímuklæddu eru frá vinstri: Óskar Björnsson, skólastjóri, Ragnheiður Matthíasdóttir, deildarstjóri yngsta stigs, Gunnar Línberg Sigurjónsson, kjörforseti Kiwanisklúbbsins Drangeyjar, Sigurbjörn Bogason, þjónustustjóri hjá VÍS, Ingólfur Guðmundsson og Emil Hauksson Kiwanisfélagar. Mynd: PF.

Áður en friðarganga Árskóla á Sauðárkróki hófst á föstudagsmorgni í síðustu viku voru nemendum í 1. - 6. bekk afhent endurskinsvesti til eignar. Þar voru á ferð félagar í Kiwanisklúbbnum Drangey í Skagafirði í samstarfi við VÍS og óskuðu þeir eftir því að vestin yrðu notuð við sem flest tækifæri, ekki síst í svartasta skammdeginu. 

„Við vonumst til þess að aðrir klúbbar taki þetta upp á sínum svæðum, alla vega innan Kiwanishreyfingarinnar,“ sagði Gunnar Línberg Sigurjónsson, kjörforseti klúbbsins, við blaðamann Feykis. „Við erum að láta hugmynd sem poppaði upp fyrir tveimur árum síðan verða að veruleika. Í Kóvidinu er ekkert að gera svo maður verður eitthvað að dunda sér við,“ bætir hann við.

Gunnar segir verkefnið eiga eftir að berast frekar út en til stendur að gefa vesti í alla skóla á Norðurlandi vestra og rúmlega það. „Við bíðum nú eftir því að fá restina af vestunum hingað heim þannig að við getum látið merkja þau og farið með í Hofsós, Hóla og Varmahlíð. Svo erum við með félaga á Blönduósi sem einnig fá vesti til að dreifa fyrir vestan, alveg frá Drangsnesi og að Blönduósi og Skagaströnd.“

Að sögn Gunnars voru afhent alls 230 vesti í Árskóla og á þá eftir að koma 398 stykkjum til nýrra eigenda.

/PF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir