Neyðarkallinn seldist vel á Króknum

Bjartur Þór Jóhannsson afhendir Stefáni Loga Haraldssyni, framkvæmdastjóra Steinullar, stóran Björgunarkall. Aðsend mynd.
Bjartur Þór Jóhannsson afhendir Stefáni Loga Haraldssyni, framkvæmdastjóra Steinullar, stóran Björgunarkall. Aðsend mynd.

Salan á Neyðarkallinum fór fram um helgina 1.-3. nóvember og gekk vel og vill Skagfirðingasveit, björgunarsveitin á Sauðárkróki, koma þökkum á framfæri fyrir góðar móttökur sem sölufólk fékk hjá fyrirtækjum og íbúum við kaup á neyðarkallinum í ár. 

„Salan byrjaði 1. nóvember og gengið var í hús um kvöldið. Slysavarnarfélagið og Björgunarsveitin ásamt dyggri aðstoð frá unglingadeildinni Trölla gekk í hús um helgina, einnig seldum við í anddyri Kaupfélags Skagfirðinga seinniparts á föstudeginum. Einnig má koma fram þakkir til sjálfboðaliða sem tóku þátt í sölu á neyðarkallinum,“ segir Þorgerður Eva Þórhallsdóttir hjá Skagfirðingasveit.

Fjármagnið, segir Þorgerður, verður notað til að efla búnað og styrkja þjálfun björgunarsveitarmanna, en eins og flestir vita er rekstur björgunarsveita dýr.

Miklir fjármunir fara í rekstur alls búnaðar sveitanna, húsnæði og þjálfun björgunarsveitarfólks og segir Þorgerður að sala á Neyðarkallinum sé stór liður í fjármögnun þess.

Fleiri fréttir