Niðurskurður til einhvers?

Við hjónin fluttum út á land núna í byrjun árs eftir að hafa látið okkur dreyma um það lengi. Við fluttum í Skagafjörð þar sem eiginmaðurinn fékk vinnu og ég var svo lánsöm að vinnuveitendur mínir í Reykjavík sættu sig við að ég sinnti starfi mínu í fjarvinnu. Tilveran tók stakkaskiptum, skutlið snarminnkaði frá því sem var í höfuðborginni, stressið heyrði sögunni til og kreppufjandinn var ekki alls ráðandi.

                Aldrei nokkurn tíma gerðum við ráð fyrir að við gengjum að nákvæmlega sömu þjónustu vísri hér og í höfuðborginni. Við vissum fullvel að við þyrftum að sækja einhverja þjónustu bæði suður og til Akureyrar en töldum að hér væri þó allt til staðar sem við nauðsynlega þyrftum á að halda, og við gætum boðið börnunum okkar upp á allt sem þurfa þykir til að ala upp góða og gegna borgara.        

                Rétt eftir að við fluttum var fæðingardeildinni á Sauðárkróki lokað vegna niðurskurðar, nokkrum mánuðum áður en við áttum von á okkar þriðja barni. Það þótti mér undarlegt því fæðingarþjónusta hér í Skagafirði er með afbrigðum góð. Hér eru reyndar ljósmæður, sérlega vel útbúin fæðingarstofa og allt eins og best verður á kosið. Mikið var ég þó fegin að eiga von á barni í júlí en ekki um hávetur þegar allra veðra er von. Tilhugsunin um að hjakkast yfir Öxnadalsheiðina í björgunarsveitarbíl í blindbyl að sálast úr hríðarverkjum var ekki mjög heillandi, hvað þá ef við hefðum þurft að fara enn lengri leið eins og á við um fjölda kvenna.

                Nú er allt að fara í tóma vitleysu. Skera á niður á sjúkrahúsinu um 30 prósent í viðbót við þau 11 sem skorið var niður um á síðasta ári og þótti nóg um. Fjölda fólks þarf að segja upp, komur sérfræðilækna verðar lagðar af og ætli maður megi ekki þakka fyrir ef það verður yfir höfuð hægt að skipta á rúmunum hjá gamla fólkinu. Enn meiri niðurskurður er fyrirhugaður á Húsavík. Fólk sem býr úti á landi skal nú þvælast út um allar koppagrundir til að hitta lækni, nokkur hundruð kílómetra ef því er að skipta, með tilheyrandi ferðakostnaði og vinnutapi. Vissulega er hægt að sækja um að fá tvær ferðir á ári greiddar frá Sjúkrastofnun ef þarf að sækja læknisþjónustu utan heimabyggðar. Það sér hins vegar hver heilvita maður að það þarf ekki mikið að ganga á til að sá kvóti fyllist. Þess utan hlýtur að vera ódýrara að fá einn lækni til að heimsækja sjúkrahús og taka á móti sjúklingum einn dag í mánuði, eins og hingað til hefur verið boðið upp á, heldur en senda fjölda manns á sjúkrahús á Akureyri eða í Reykjavík sömu erinda. Svo er fullyrt að kostnaður við hvert rúm á minni sjúkrahúsunum sé mun lægri en á þeim stóru. Er þetta þá ekki bara að mestu tilfærsla á peningum en ekki raunverulegur sparnaður?

                Auðvitað vitum við öll að það þarf að skera niður og landsbyggðarfólk ætlast alveg örugglega ekki til þess að sleppa við allan niðurskurð eða láta öðrum um að byggja upp eftir þetta skelfilega hrun. En við getum ekki sætt okkur við þessar aðgerðir og það er ekki nokkur lifandi leið að sjá að þær muni í raun spara nokkuð heldur. Skaðinn verður fyrirsjáanlega til langframa því þau okkar sem missa vinnuna hafa ekki um mörg atvinnutækifæri að velja í heimabyggð, búsetuskilyrði versna til muna og það mun taka mörg ár að koma öllu samt lag aftur, ef það þá tekst. Haft var eftir Kristjáni Möller í hádegisfréttunum í dag að það verði ekki liðið að 86% af áætluðum niðurskurði í heilbrigðismálum komi niður á landsbyggðinni. Yfirlýsingar af þessu tagi hjálpa okkar málstað lítið. Við græðum ekkert á því heldur að það sé skorið niður á Landsspítalanum eða Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta snýst ekki um einhvern meting á milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar heldur hvenær niðurskurðurinn, hvar sem hann lendir, fer út yfir öll sársaukamörk og skilur eftir sig óafturkræf spor.

Laufey Leifsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir