Hundgá og „high tea“ í Glaumbæ

Í tilefni af afmæli enska aðalsmannsins Mark Watson (1906–1979) stóð Byggðasafn Skagfirðinga, venju samkvæmt, fyrir dagskrá í Glaumbæ þann 18. júlí sl. Watson var mikill Íslandsvinur og eigum við honum margt að þakka, Þar með talið rausnarlega peningagjöf til viðgerða á gamla torfbænum í Glaumbæ árið 1938, sem átti sinn þátt í því að bærinn hefur varðveist. Watson hefur jafnframt verið titlaður bjargvættur íslenska fjárhundsins og er afmælisdagur hans „Dagur íslenska fjárhundsins“.
Eðli málsins samkvæmt var mikið fjör með tilheyrandi hundgá þegar hundana bar að garði. Aðeins var þefað hvert að öðru og sumir hundar voru meiri félagar en aðrir, eins og gengur, en allir voru glaðir að fá hundanammi. Gætt var að því að allir fengju eitthvað fyrir sinn snúð; úrval af hundanammi og nagbeinum var fyrir fjórfætlingana, en boðið var upp á „high tea“ að hætti breska aðalsins í Áshúsi, en slíkar veitingar voru ómissandi að mati Mark Watson.
Heiðursgestur dagsins var Patricia Putman frá Bandaríkjunum. Hún hefur tileinkað líf sitt hundarækt og þjálfun, og hefur íslenski fjárhundurinn þar skipað stærstan sess. Pat vann með Mark Watson á 5. áratugnum að bók hans The Iceland Dog 874–1956. Hún átti auk þess stóran þátt í vali og innflutningi á íslenskum hundum til Bandaríkjanna.
Starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga þakkar öllum sem komu í heimsókn í tilefni af afmæli Mark Watson, og sérstakar þakkir fá Evelyn Ýr Kuhne hjá Sögusetri íslenska fjárhundsins fyrir samstarfið og til Patricia Putman fyrir að koma og deila visku sinni.
/Fréttatilkynning