Níu verkefni á Norðurlandi vestra fá styrki í sameiginlegri úthlutun Guðmundar Inga og Þórdísar Kolbrúnar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í morgun um úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. Þrjú verkefni á Norðurlandi vestra fá styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og sex úr Verkefnaáætlun 2019-2021.
Þetta er í annað sinn sem kynnt er sameiginlega um úthlutun úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Frá því í fyrra hafa innviðir verið byggðir upp á fjölmörgum stöðum um allt land. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir að þessu sinni styrki til 40 verkefna og nemur heildarstyrkupphæðin alls 505 milljónum króna. Hæsti styrkurinn fer til innviðauppbyggingar við Goðafoss sem er nú kominn á lokastig eftir markvisst uppbyggingarstarf á undanförnum árum.
Gert er ráð fyrir ríflega þriggja milljarða framlagi til þriggja ára verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2019-2021. Þar með bætist rúmur milljarður króna við þá áætlun sem kynnt var í fyrra.
Sjá nánar Hér.
Verkefni á Norðurlandi vestra sem fá styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða:
Drangeyjarjarlinn ehf. - Áframhaldandi uppbygging á Reykjarhöfn.
Kr. 17.998.000,- styrkur til að byggja upp viðlegukant og ramp, dýpka höfnina og styrkja varnargarðinn. Auðveldar ferðafólki aðgengi að sjóbaði og bætir aðgengi viðbragðsaðila. Áhugaverður ferðamannastaður þar sem verið er að bæta úr öryggismálum.
Hestamannafélagið Neisti A. Hún – Áning og aðstaða á krossgötum.
Kr. 1.779.350,- styrkur til að koma upp áningastað á krossgötum við Vatnsdalshóla. Á þessum stað mætast reiðleiðir úr fjórum höfuðáttum.
Ágætt innviðaverkefni á mikilvægri reiðleið sem tengist náttúruvernd og öryggi. Einungis er verið að styrkja hluta af viðkomandi verkefni.
Skagabyggð - Kálfshamarsvík sem áfangastaður.
Kr. 13.000.000,- styrkur til að bæta aðstöðu fyrir ferðafólk í Kálfshamarsvík. Verkefnið felur í sér að leggja göngustíga víða til að vernda landið, koma upp viðunandi bílastæðiog salernisaðstöðu, leggja vatnslagnir að svæðinu og koma upp upplýsingaskiltum um sögu svæðisins. Einnig að bæta aðkomuna með því að lagfæra vegarslóða að svæðinu.
Verkefnið stuðlar að náttúruvernd og bættu öryggi ferðamanna. Svæðið er aðgengilegt en brýnt er að bæta úr skorti á grunnþjónustu og styrkja ferðaþjónustu á veiku svæði allan ársins hring í samræmi við skipulag svæðisins.
Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir staði og áætluð verkefni til verndunar náttúru og menningarsögulegum minjum á Norðvesturlandi árin 2019-2021 vegna landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.