Nóg um að vera á Eldi í Húnaþingi
Mikið hefur verið um að vera á Eldi í Húnaþingi. Vel heppnaðir tónleikar Sverris og Halldórs í Borgarvirki fóru fram í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni og var stemmning mjög góð.
Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni í dag. Klukkan 14:30 hefst Eldraunin þar sem heimafólk keppir um titilinn „Sterkasti maður og kona Húnaþings vestra“, en öllum gestum hátíðarinnar er velkomið að taka þátt. Keppnin mun fara fram á hafnarsvæðinu og keppt verður í fimm greinum sem eru eftirfarandi: trukkadráttur, bóndaganga, hleðslugrein, drumbalyfta og réttstöðulyfta.
Klukkan 17:00 taka heimamenn í sameiginlegu liði Kormáks/Hvatar á móti Kríu á Hvammstangavelli. Búast má við mikilli baráttu en bæði lið þurfa að ná 3 stigum úr leiknum.
Klukkan 19:30 hefst sjálflýsandi diskó í kjallarnum í Félagsheimilinu. Mælt er með því að tína til gamla neongræna dansgalla og skella sér á fjölskyldudiskótek með gömlu góðu lögunum og sjálflýsandi sprelli. Diskótekið hentar börnum á aldrinum tveggja til tólf ára sérstaklega.
Stórhljómsveitin Paparnir spila fyrir dansi í kvöld í Félagsheimilinu. Þessi vinsæla hljómsveit kemur með sína frábæru blöndu af írskri þjóðlagatónlist og ballslögurum til Hvammstanga á hið goðsagnakennda Unglistarball. Sextán ára aldurstakmark er á ballið.
Dagskráin hefst svo kl. 10 í fyrramálið með strandhreinsun og kaffimorgni. Þar munu þátttakendur leggja sitt af mörkum til að vernda plánetinu með því að hreins upp draslið sem rekur á land dag hvern. Ströndin að Söndum verður hreinsuð. Þynnkulæknandi dögurður hefst svo klukkn 11 á Sjávarborg og stendur til klukkan 13. Leikhópurinn Lotta sýnir Gosa kl. 17 á Mjólkurstöðvartúninu. Gott er að taka með sér teppi og klæða sig eftir veðri.
Ásgeir Trausti lokar svo Eldi í Húnaþingi með tónleikum í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka kl. 21:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.