Nokkrir Skagfirðingar tengjast Stellu Blómkvist
Ný íslensk þáttaröð um Stellu Blómkvist hóf göngu sína sl. föstudag í Sjónvarpi Símans og er óhætt að segja að hún hafi fengið góð viðbrögð áhorfenda. Feykir hefur náð að tengja nokkra Skagfirðinga við þættina, misjafnlega mikið, en aðalleikarinn á rætur í Skagafjörðinn.
Þættirnir um Stellu eru byggðir á bókunum um Stellu Blómkvist sem margir þekkja, en engin veit hver skrifar. Stella er leikin af Heiðu Rún Sigurðardóttur, Heiðu Reed, sem margir þekkja úr þáttunum Poldark. Heiða á ættir sínar að rekja í Skagafjörðinn en pabbi hennar, Sigurður Marteinsson, bjó á Króknum sín uppvaxtarár. Hann er sonur Marteins Friðrikssonar, frá Hofsósi, sem starfaði lengi sem framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar á Sauðárkróki.
Heiða fer á kostum í hlutverki Stellu og gaman að sjá hana í öðru hlutverki en Elizabeth í Poldark þáttunum Bresku.
Króksarinn og Úlf Úlfurinn, Helgi Sæmundur Guðmundsson, samdi tónlistina og er það frumraun hans á því sviði í kvikmyndum. „Þetta var mitt fyrsta verkefni af þessu tagi og ég er mjög ánægður með útkomuna og vill ólmur gera miklu meira af þessu,“ segir Helgi á Facebooksíðu sinni. Feykir er ekki í neinum vafa um að Helgi á eftir að halda áfram að gera góða hluti í þessum bransa.
Í fyrsta þætti þar sem framið er morð í Stjórnarráðinu koma lögreglumenn við sögu að yfirheyra sakborning. Þar bregður fyrir lögreglumanninum og margreyndum leikara úr Leikfélagi Sauðárkróks, Kristjáni Erni Kristjánssyni. Lítið hlutverk en bæði leikur og texti fyrir framan myndavél.
Kannski eru þeir fleiri Skagfirðingarnir sem tengjast þáttaröðinni og gaman væri að fá ábendingar um það.
Vel gert Skagfirðingar!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.